Réðst á samfanga með heimagerðu eggvopni

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði.

Fangi á Hólmsheiði réðst á samfanga sinn í gærkvöldi með heimagerðu eggvopni. Brotaþoli slapp eins vel og hugsast gat en sjúkraliði kom á staðinn og gerði að sárum hans. Árásarmaðurinn er nú í einangrun.

Páll Winkel fangelsismálastjóri staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Mannlíf greindi fyrst frá. 

Að sögn Páls var árásin fyrirvaralaus en hún átti sér stað frammi á gangi á einni deild fangelsisins. Vitni urðu að árásinni og brugðust fangaverðir jafnframt skjótt við.

Tengist erjum milli hópa

Lögreglan fer nú með rannsókn málsins og er verið að ræða við þá sem urðu vitni að árásinni. Þá er jafnframt verið að skoða hvernig hægt sé að tryggja öryggi fanganna í framhaldinu.

Fram hefur komið í öðrum miðlum að árásin tengist átökum milli glæpahópanna sem eru tengdir árásinni á Bankastræti Club í nóvember á síðasta ári.

Að sögn Páls tengist árásin í gær erjum milli ýmissa hópa. Hann segir marga smáhópa hafa myndast undanfarin ár og að það sé hægara sagt en gert að skilja þá að í fangelsum verandi með eingöngu tvö lokuð fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert