Vissu ekki að þau væru ein að kjósa um verkföll

Íslandshótel reka stærsta hótel landsins í Bríetartúni.
Íslandshótel reka stærsta hótel landsins í Bríetartúni. mbl.is/Baldur Arnarson

„Það kom okkur verulega á óvart að þau skyldu hafa ákveðið að taka eitt fyrirtæki fyrir,“ segir Davíð Torfi Ólfasson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, í samtali við mbl.is.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um á mbl.is hefur kjörstjórn Eflingar boðað til atkvæðagreiðslu um boðun verkfalla hjá starfsfólki hótelkeðjunnar, sem einnig rekur Fosshótel. Atkvæðagreiðslan hófst í hádeginu í dag.

Fyrst greindi mbl.is frá því á sunnudagskvöld að aðgerðir félagsins kynnu að beinast að Íslandshótelum.

„Við erum búin að setjast niður með öllu okkar fólki í dag og í gær og fara yfir stöðuna með þeim, gefa þeim heildarmyndina – ekki bara eina hlið,“ segir Davíð og bætir við að samtalið við starfsfólkið hafi gengið vel. 

Boðað var til fundar um aðgerðir á Íslandshótelum á sunnudag.
Boðað var til fundar um aðgerðir á Íslandshótelum á sunnudag. mbl.is/Óttar

Ósanngjarnt að vera sett í þessa stöðu 

„Heilt yfir er góð stemning hjá okkar fólki. Þeim finnst ósanngjarnt að vera sett í þessa stöðu að taka ákvörðun fyrir 21 þúsund félagsmenn, þau eru 284. Þegar þau mæta á fundinn á sunnudaginn með Eflingu virðast þau ekki hafa vitað að aðeins væri um að ræða starfsfólk Íslandshótela. Það kom þeim verulega á óvart,“ segir hann. 

Davíð segir að þeim finnist eðlilegast að leyfa Eflingarfólki að kjósa um þann samning sem er á borðinu á svipuðum forsendum og önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa samþykkt. 

„Það væri rétt hjá forystu Eflingar að kjósa bara um samninginn.“

Telur þú að það sé frekar vilji hjá þínu starfsfólki en annars staðar að samþykkja að fara í verkföll?

„Ég get ekki svarað því nema að geta í eyðurnar. Mögulega telur forysta Eflingar að þau geti fengið fram hagstæðari niðurstöðu í okkar geira en annars staðar, en er ekki betra að reyna að fá fram betri heildarmynd heldur en að tala bara við hóp sem þú heldur að muni gefa þér þína niðurstöðu?“

Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Ekki fengið fullnægjandi upplýsingar

Eins og áður sagði hafa stjórnendur Íslandshótela fundað með starfsfólki sínu til að veita upplýsingar. Spurður hvort hann hafi orðið þess áskynja að starfsfólk hafi fengið villandi eða einhliða upplýsingar segir Davíð: 

„Starfsfólkið okkar hefur bara fengið þær upplýsingar frá Eflingu sem henta þeim. Það er spurt hvort að það vilji 50 þúsund króna launahækkun eða 70 þúsund króna launahækkun.

Það fær ekki að vita að það er að verða af afturvirkum launahækkunum, þau fá ekki að vita hvað það þýðir að vera í verkfalli. Til dæmis að greiðslur úr verkfallssjóði séu lægri en fólk fær í vinnu hjá okkur, með álagi eða að ganga vaktir. Þau safna ekki orlofstímum, þau hafa ekki verið upplýst um það. Það er þarna fullt af göllum sem ekki hefur verið greint frá.“

Telur að verkfall verði ekki samþykkt

„Ég vona að fólk sé orðið upplýst um stöðuna og kjósi samkvæmt sinni sannfæringu. Vonandi er sú sannfæring að best hefði verið að kjósa um þann samning sem er á borðinu og nýta gildistíma hans í að ná góðum langtímasamningi.“

Er þín tilfinning sem stendur að verkfall verði samþykkt?

„Nei.“

Davíð segir að starfsfólkið sem undir sé, sé að stærstum hluta konur, og mikill meirihluti af erlendu bergi brotinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert