Dómsmálaráðuneytið ósátt við skýrslu Rauða krossins

Skýrsla Rauða krossins kom út fyrir nokkrum dögum.
Skýrsla Rauða krossins kom út fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðuneytið gerir margvíslegar athugasemdir við efni og framsetningu skýrslu Rauða kross Íslands (RKÍ) um aðstæður hóps einstaklinga, einkum frá Írak og Nígeríu, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og ekki hefur tekist að vísa úr landi.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. 

Skýrslan kom út fyrir nokkrum dögum og segir á vef Rauða krossins að hún sé afrakstur sex mánaða rannsóknarvinnu. Meðal annars var tekið viðtöl við 15 einstaklinga frá Nígeríu og Írak.

Í skýrslunni er talað um umborna dvöl (e. tolerated stay) sem hugtak yfir einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og íslensk stjórnvöld geti ekki framkvæmt brottflutning þeirra úr landi.

Dómsmálaráðuneytið segir þetta ranga notkun hugtaksins og gefi villandi til kynna að „dvöl umræddra útlendinga hér á landi sé að einhverju leyti lögleg eða í „hálfgerðu lagalegu tómarúmi“, en svo er alls ekki.“

Þá segir að ekki hafi verið tekið tillit til málsmeðferðar stjórnvalda vegna umsóknar viðkomandi útlendinga um alþjóðlega vernd.

„Forsendur fyrir tilvist verndarkerfisins brostnar“

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu meðal annars að aðgengi að réttindum og þjónustu skorti, þar sem að einstaklingarnir eru ekki með kennitölu og er gert nánast ómögulegt að sækja um og hljóta atvinnuleyfi. 

Um þetta segir í athugasemdum ráðuneytisins:

Skýrslan skautar þannig að miklu leyti fram hjá þeirri mikilvægu staðreynd að í nær öllum tilvikum geta umræddir útlendingar farið sjálfviljugir til síns heimaríkis.“

Þá er bent á að útlendingur sem snýr sjálfviljugur til síns heima geti fengið margvíslega aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum, svo sem með greiðslu fargjalds og farareyri. 

Ef hægt er að hafa alla stjórnsýslumeðferð yfirvalda að engu með því einu að neita að fara af landi brott og öðlast með því víðtæk réttindi hérlendis, líkt og RKÍ leggur til í skýrslu sinni, eru forsendur fyrir tilvist verndarkerfisins brostnar og tæplega ástæða fyrir fólk heldur að afla sér dvalarleyfis hér á landi ef þessi leið er opin á þennan hátt,“ segir í lok tilkynningar ráðuneytisins. 

mbl.is