Stúdentar lýsa þungum áhyggjum

Stúdentaráð telur að staðan sé þung og í þveröfuga átt …
Stúdentaráð telur að staðan sé þung og í þveröfuga átt við það sem fram kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af fjárhagsstöðu Háskóla Íslands  (HÍ), þar rektor hafi vakið athygli á að milljarð vanti upp á, til þess að Háskóli Íslands nái endum saman fyrir komandi ár.

„Ljóst er að vöntun á fjármagni hefur mikil áhrif á grunnstarfsemi skólans, en háskólaráð hefur samþykkt aðhaldsaðgerðir vegna stöðunnar sem fela meðal annars í sér niðurskurð í kennslu og stöðvun á ráðningum. Þessu til viðbótar er enn meiri niðurskurður boðaður í fjármálaáætlun fyrir árið 2024,“ segir í fréttatilkynningu frá Stúdentaráði.

Segja þróunina í öfuga átt við stjórnarsáttmála

Staðan sé þung og í þveröfuga átt við það sem fram kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, um að stefna að sambærilegri fjármögnun háskóla á Íslandi og þekkist á hinum Norðurlöndunum.

„Stúdentaráð hefur um árabil vakið athygli undirfjármögnun háskólans og afleiðingum hennar, nú síðast í umsögn við fjárlög 2023. Þá hefur forseti Stúdentaráðs ítrekað vakið máls á alvarleika stöðunnar við ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og þeirri staðreynd að fjárveiting til háskólastigsins samræmist ekki þeim áherslum eða markmiðum sem stefnt er að í nýju ráðuneyti háskólamála. Það skýtur skökku við að á sama tíma og kallað er eftir fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum er halli Heilbrigðisvísindasviðs 240 milljónir og sett eru fram markmið um aukið námsframboð í STEAM greinum á sama tíma og Verkfræði- og náttúruvísindasvið hefur þurft að draga verulega úr kennslu vegna fjárskorts.“

Stúdentaráð krefst þess að stjórnvöld standi við lögbundna skyldu sína og stórauki fjárframlög til opinberrar háskólamenntunar. „Það skiptir sköpum fyrir íslenskt samfélag, eflir lífskjör, verðmætasköpun og samkeppnishæfni menntakerfisins auk samfélagsins á alþjóðavettvangi,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert