Réttindalaus og villti á sér heimildir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður, sem lögregla stöðvaði við akstur í hverfi 221 rétt fyrir klukkan níu í morgun, reyndist vera réttindalaus og gaf auk þess upp rangt nafn. Gerði lögregla skýrslu um málið og var ökumaðurinn frjáls ferða sinna að því loknu.

Er þetta meðal verkefna lögreglu frá því snemma í morgun og þar til klukkan 17. Í hverfi 105 var skömmu fyrir hádegi tilkynnt um innbrot í og þjófnað úr bifreið en ekki vitað um geranda. Þá var um klukkan 14 tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 103 en ekki vitað um geranda.

Lögreglumenn fjarlægðu skráningarnúmer af bifreið í hverfi 221 þar sem hún stóð ótryggð en í hverfi 110 var ökumaður stöðvaður vegna gruns um að hann væri ekki allsgáður við aksturinn. Var hann látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert