Lestur Fréttablaðsins hefur hríðfallið

Hætt var að dreifa Fréttablaðinu í hús á höfuðborgarsvæðinu og …
Hætt var að dreifa Fréttablaðinu í hús á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri um áramótin, en þess í stað eru blöðin í boði á 120 stöðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lestur Fréttablaðsins hefur hríðfallið eftir að hætt var að dreifa blaðinu í hús á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri í upphafi árs. Þetta sýna nýjar tölur Gallup yfir lestur prentmiðla. Á sama tíma hefur lestur Morgunblaðsins aukist.

Meðallestur Fréttablaðsins í desember nam 28,2%, en í janúartölum Gallup er lesturinn kominn niður í 15,7%. Tilkynnt var um það í upphafi mánaðarins að Fréttablaðinu yrði ekki dreift í hús frá og með áramótum, heldur yrði það aðgengilegt á 120 stöðum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Árborg­ar­svæðinu, Akra­nesi, Borg­ar­nesi og á Ak­ur­eyri.

Jón Þórisson, forstjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, gaf þær skýringar fyrir ákvörðuninni að samfélagshættir hefðu breyst og að dreifingin hafi ekki haft tilætluð áhrif auk þess sem dreifingin hafi verið mjög kostnaðarsöm.

Jón Þórisson, forstjóri Torgs.
Jón Þórisson, forstjóri Torgs. Fréttablaðið/Anton Brink

Samkvæmt þessum nýju tölum Gallup er meðallestur Morgunblaðsins 18,9% og fer upp úr 17,8% frá mánuðinum áður. Er Morgunblaðið þar með það dagblað landsins sem hefur mestan lestur.

mbl.is