Varað við vondu veðri og stormi um allt land

Kort/Veðurstofa Íslands

Mikil rigning, hlýindi og hvöss eða allhvöss sunnanátt er á sunnan- og vestanverðu landinu í dag. Að sögn veðurfræðinga gætu hlýindi og hnjúkaþeyr valdið snjóbráðnun sem auka líkur á snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum. Meiri hætta er á svæðum sem ekki rignir þar sem er töluverður snjór.

Vont veður í kortunum á þriðjudag

Þegar veðurfar er talið geta haft mikil áhrif eru spár settar tímanlega inn og það á við um næsta þriðjudag. 

„Það eru skil að ganga yfir landið, kröftug skil sem ganga frá vestri til austurs á þriðjudagsmorguninn. Mikill vindur, sunnanstormur og jafnvel rok eins og spár líta út í dag. Talsverð úrkoma í skiljunum, en þetta gengur mjög hratt yfir landið,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Gul viðvörun verður um allt landið á þriðjudaginn vegna þessa frá því klukkan 7 um morguninn til sex um kvöldið.

Áhrif á samgöngur og hugsanlegt foktjón

Hún segir að viðvaranir séu til að vekja athygli á því að veðrið geti haft mikil áhrif. 

„En það eru ennþá breytingar á spám, þannig að við höfum ekki gefið út nánari spár. En það eru allar líkur á að þetta muni hafa áhrif á allt landið og áhrifin geti orðið mikil.“

Birta segir að það gæti orðið foktjón, en eins og spáir lítur út núna geti orðið snjókoma eða slydda á þriðjudaginn og veður kaldara en í dag. „Veðrið gæti líka haft áhrif á samgöngur, en þar sem allt bendir til þess að kaldara verði í veðri erum við ekki að horfa á leysingar, heldur frekar mikið rok, snjó og slyddu.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina