Lögmanni gert að greiða málskostnað úr eigin vasa

Lögmanni stefnanda var gert að greiða málskostnað úr eigin vasa.
Lögmanni stefnanda var gert að greiða málskostnað úr eigin vasa. Ljósmynd/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur gerði lögmanni að greiða málskostnað umbjóðenda sinna sökum þess að hann hafði ekki umboð til málsóknar samkvæmt niðurstöðu dómsins frá því á föstudag.

Forsaga málsins er sú fjölskylda manns sem lést árið 2021 höfðaði mál á hendur ungu pari í nafni dánarbús. Hinn látni var fjölskyldufaðir sem hafði látið í té 5,5 milljónir króna að gjöf til unga parsins samkvæmt því er kemur fram í máli lögmanns stefnda.

Kona hins látna og einn erfingja eftir manninn staðfesti að um gjöf hefði verið að ræða en börn mannsins vildu engu að síður höfða mál þar sem þess var krafist að hin meinta gjöf yrði endurgreidd dánarbúinu.

Skorti umboð til málsóknar 

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekki hafi verið einhugur meðal erfingjanna um málsóknina þar sem kona mannsins sem er einn erfingja var ekki hluti af málsókninni. Af þeim sökum hafi lögmaður barna mannsins ekki haft umboð til þess að höfða málsóknina þar sem allir erfingjar hafi þurft að vera samhuga um málsóknina.

Þetta hafi lögmanni barnanna mátt vera ljóst. Á þeim grunni var málinu vísað frá héraðsdómi.

„Krafa stefndu um málskostnað úr hendi þess lögmanns sem kom fram fyrir hönd stefnanda er meðal annars reist á því að hann hafi skort umboð og höfðað málið að þarfalausu,“ segir í dómnum.

Var lögmanninum því gert greiða málskostnað upp á 250.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert