„Það er allt að ganga vel á Íslandi“

„Almennt séð þá er allt að ganga vel á Íslandi,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi. Hann bendir á að undirstöðugreinarnar okkar séu með sterka stöðu. Sjávarútvegurinn að ganga vel. Ferðmannaiðnaðurinn að taka vel við sér. Mikil uppbygging sé áformuð í fiskeldi og útflutningur gangi almennt vel. Með þessa stöðu fyrir framan okkur blasi við að Ísland sé á góðum stað.

Úlfar teiknaði upp þessa stöðu í Dagmálaþætti dagsins þar sem umræðuefnið var bílamarkaðurinn með sérstaka áherslu á rafbíla.

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju tók undir með Úlfari og sagði að atvinnuleysi væri nánast ekkert og það væri ljóst af samtölum við fólk í öðrum Evrópulöndum að Ísland væri í mjög góðri stöðu.

Úlfar minnti á að við værum fljót að tala okkur upp í það að hér væri ýmislegt að og mikil vandamál. Við þyrftum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að staða Íslands væri mjög þegar horft væri á stóru myndina.

Það ætti að vera hressandi fyrir þrasgjarna þjóð að heyra þennan tón hjá stjórnendum stórra fyrirtækja á Íslandi. Fyrir þá sem vilja heyra meira frá þeim Úlfari og Jóni Trausta má benda á að Dagmálaþátturinn er aðgengilegur öllum áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is