Flaug alla leið frá Evrópu en sneri við yfir Hveragerði

Hér má sjá þá leið sem vélin flaug í dag.
Hér má sjá þá leið sem vélin flaug í dag. Kort/Flightradar24

Sex flugferðum hefur verið aflýst og fjórum frestað til og frá Keflavíkurflugvelli vegna veðurs í dag og í nótt.

Fjórum flugferðum til Íslands var aflýst; flugi Icelandair frá Las Palmas, flugferðum Play frá Boston og Baltimore í Washington, og loks flugi Vueling frá Barcelona.

Flugi hefur verið aflýst og frestað vegna veðurs í dag.
Flugi hefur verið aflýst og frestað vegna veðurs í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugi frestað til morgundagsins

Þá var einu brottfararflugi frestað, flugi Lufthansa frá Keflavík til Frankfurt, og tveimur brottförum aflýst, flugi Vueling til Barcelona og flugi Icelandair til New York.

Komu vélar Lufthansa frá Frankfurt hefur verið seinkað til morgundagsins auk flugferða Icelandair frá Kaupmannahöfn og Heathrow-flugvelli við Lundúnir.

Flaug beint aftur til Frankfurt

Athygli vekur að Lufthansa-vélin flaug alla leið frá Frankfurt norður yfir Atlantshafið, og yfir suðurhluta Íslands.

Þar lækkaði hún flugið niður í ellefu þúsund fet áður en henni var svo snúið við í háloftunum yfir Hveragerði.

Að því búnu var henni flogið alla leið aftur á flugvöllinn í Frankfurt.

Þrjár flugvélar Play þurftu ekki svo langt frá að hverfa í dag, en þær lentu á varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum.

mbl.is