Fyrsta landsmót hinsegin ungmenna

Landsmótsgestir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Landsmótsgestir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Um liðna helgi fór fram að Varmalandi í Borgarfirði fyrsta landsmót hinsegin-fólks hér á landi.

Að landsmótinu, sem var haldið fyrir ungmenni á aldrinum 13-16 ára, stóð Hinsegin FÉLAK á Akureyri ásamt Hinsegin félagsmiðstöð S78, Tjarnarinnar og Samfés, landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi. Þá tóku ungmennin sjálf þátt í skipulagningu mótsins.

Ávarp forsætisráðherra og virk þátttaka forseta Íslands

Í tilkynningu frá aðstandendum segir að landsmótið hafi verið þríþætt; Hópefli og skemmtun, fræðsla og smiðjur til aða auka þekkingu og virkni og að lokum málþing sem var vettvangur til að skiptast á skoðunum og koma þeim á framfæri.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók virkan þátt í umræðunni á málþinginu auk þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi ávarp í upphafi landsmótsins.

Það var kátt á hjalla á Hinsegin Landsmóti ungmenna um …
Það var kátt á hjalla á Hinsegin Landsmóti ungmenna um liðna helgi. Ljósmynd/Aðsend

Virk þátttaka án ritskoðunar

„Það eru fjölmörg hinsegin ungmenni þarna úti sem við vitum ekki af og þora ekki að stíga skrefið inni í hinsegin félagsmiðstöðina. Ef viðburðurinn verður til þess að eitt ungmenni þorir að taka skrefið þá er það stórkostlegt.

Mikilvægast er að þau upplifi að þau tilheyri jafnöldrum sínum og fái tækifæri til virkrar þátttöku án þess að þurfa að ritskoða sig og óttast að verða fyrir aðkasti,“ er haft eftir Lindu Björk Pálsdóttir, eins skipuleggjenda Hinsegin Landsmóts í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningunni að markmiðið með Landsmótinu hafi verið að þjálfa ungmennin í lýðræðislegum vinnubrögðum og að hvetja þau til að skiptast á skoðunum á uppbyggilegan hátt. Það sé mikilvægt að sýna þeim að þeirra rödd skiptir máli og að þau njóti stuðnings í þjóðfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert