Starfsfólk safnsins slegið

Borgarskjalasafn er til húsa í Grófarhúsinu við Tryggvagötu ásamt Borgarbókasafninu.
Borgarskjalasafn er til húsa í Grófarhúsinu við Tryggvagötu ásamt Borgarbókasafninu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Ég er slegin yfir fréttum á RÚV um að tillaga hafi verið lögð fyrir borgarráð um að leggja niður Borgarskjalasafn. Ég hef þetta þó eingöngu frá RÚV – ég hef ekki fengið að sjá tillöguna ennþá,“ segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður í samtali við Morgunblaðið.

Óvissa ríkir um framtíð Borgarskjalasafns Reykjavíkur eftir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerði það að tillögu sinni á borgarráðsfundi á fimmtudaginn að leggja safnið niður í núverandi mynd í sparnaðarskyni og færa lögbundin verkefni þess til Þjóðskjalasafnsins sem er ríkisstofnun. Til grundvallar tillögunni lá skýrsla frá KPMG um starfsemi og fjárhag safnsins.

Vanhugsað og mun koma niður á þjónustu

„Borgarskjalasafn er hluti af stjórnsýslu borgarinnar og því mjög einkennilegt að ætla að slíta hana frá annarri stjórnsýslu. Þetta er vanhugsað og mun tvímælalaust koma niður á þjónustunni við almenning, fræðimenn og ekki síst þjónustu við borgarstofnanir. Maður skilur ekki hugsunina á bak við þetta, leyndina og hraðann við að koma þessu í gegn. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við starfsemi safnsins og við höfum verið á fullu við að undirbúa stafræna varðveislu, sem er brýnasta verkefnið fram undan,“ segir Svanhildur.

Hún kveðst á engan hátt hafa verið höfð með í ráðum um tillöguna sem var kynnt í borgarráði. „Ég fékk ekki að sjá hana áður og hef ennþá ekki fengið að sjá hana, þrátt fyrir beiðni þar um. Ég fékk heldur ekki að koma fyrir borgarráð þegar tillagan var lögð fram, heldur kynntu tillöguna sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar, sem safnið heyrir undir, og þrír starfsmenn KPMG og svöruðu spurningum,“ segir Svanhildur.

Nánar er rætt við Svanhildi á síðu 17 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert