Fleiri taka strætó

Aukin aðsókn í Strætó hefur verið eftirtektarverð seinastliðna þrjá mánuði.
Aukin aðsókn í Strætó hefur verið eftirtektarverð seinastliðna þrjá mánuði. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Við erum að sjá mikla notkun undanfarna mánuði, jafnvel fyrir verkfall,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, forstjóri Stræó bs., í samtali við mbl.is, spurður um aðsókn hjá Strætó í tengslum við kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

„Hvort það tengist verkfallinu, ætla ég ekki að merkja alveg strax,“ bætir Jóhannes við.

Hann segir að aukningin hafi verið eftirtektarverð undanfarna þrjá mánuði og að Strætó sé viðbúinn fyrir aukinni aðsókn skyldi bensínskortur hafa slíkt í för með sér.

Ekki áhyggjur af bensínbirgðum

Jóhannes segist ekki geta fullyrt um hvort fjölgunin tengist verkfallsaðgerðum beint en hann telur þó mögulegt að það hafi eitthvað með fjölgun strætófarþega að gera.

„Maður getur alveg leitt líkum að því en við höfum verið að sjá, til dæmis líka í desember, að fleiri eru að nota strætó.“

Hann segist ekki hafa áhyggjur af bensínbirgðum, þar sem félagið er á undanþágu frá verkfallinu. Þar að auki eigi Strætó ávallt birgðir sem duga í um hálfan mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert