Hefndardagur runninn upp

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ósáttur með vinnubrögð borgarstjóra.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ósáttur með vinnubrögð borgarstjóra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ekki sáttur við áform borgarstjóra um að leggja niður Borgarskjalasafn og gagnrýnir vinnubrögð hans harðlega. Hann segist velta því fyrir sér hvort borgarstjóri sé í hefndarleiðangri gegn safninu vegna gagnrýni þess á vörslu skjala hjá borginni. Sú gagnrýni hafi verið yfirstjórn borgarinnar lítt að skapi.

Kjartan kallar vinnubrögð borgarstjóra óábyrg, í samtali við mbl.is. Hann segir það sjálfsagt að skoða hagræðingu í rekstri Borgarskjalasafnsins en telur vinnubrögðin í málinu vera óviðunandi.

„Ekki liggja fyrir upplýsingar frá ríkinu um getu þess eða vilja til að taka við Borgarskjalasafninu með þeim kostnaði sem því fylgir. Slíkra upplýsinga ber auðvitað að afla áður en slík ákvörðun er tekin en ekki eftir hana.“

Framsetning á gögnum sé slæm

Hann segir að í þeim gögnum sem borgarstjóri hefur lagt fram til stuðnings tillögu sinnar, sé tölum hagrætt og falskar forsendur gefnar.

Borgarskjalasafn í Grófarhúsinu við Tryggvagötu.
Borgarskjalasafn í Grófarhúsinu við Tryggvagötu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Þar sé gert ráð fyrir að Borgarskjalasafn þurfi að reisa stórhýsi fyrir tæpa fimm milljarða króna til þess að halda óbreyttri starfsemi gangandi og að þá fjárupphæð megi spara með því að leggja niður safnið.

„Þessi forsenda stenst engan veginn.“ segir Kjartan „Vel er hægt að reka safnið áfram án þess að reisa slíkt stórhýsi yfir það og vel mætti skoða að flytja safnið í ódýrara húsnæði en það er nú í.“

Veltir fyrir sér hefndarleiðangri gegn safninu

Kjartan segir að sú spurning vakni, þegar offors og óskiljanlegur flýtir á málinu eru skoðuð, hvort borgarstjóri sé á hefndarleiðangri gegn safninu.

“En þar var algert vanhæfi pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar afhjúpað með eftirminnilegum hætti.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir að þá hafi komið í ljós að skjalavistinni í því máli var stórlega ábótavant en að Borgarskjalasafnið hafi farið í frumkvæðisathugun og gagnrýndi þetta síðan.

„Þessari gagnrýni var mjög illa tekið af yfirstjórn Reykjavíkurborgar og ég velti því bara hreinlega fyrir mér hvort borgarstjóri sé ekki í hefndarleiðangri.“ segir Kjartan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert