Brýnt að auka framboð á leiguhúsnæði

Kári S. Friðriksson hagfræðingur er gestur Dagmála.
Kári S. Friðriksson hagfræðingur er gestur Dagmála. mbl.is/Hallur Már

Leiguþök hafa verið reynd á mörgum stöðum, en þau geta auðveldlega haft öfug áhrif við það sem þeim er ætlað, að mati Kára S. Friðrikssonar, hagfræðings hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), en hann er gestur Dagmála í dag.

Kári segir að það skipti mestu máli fyrir leigjendur að nægt framboð sé af húsnæði. „Sé framboðið lítið þá hafa leigusalarnir völdin hjá sér og þeir geta komið „illa fram“. Þeir þurfa ekki að leggja mikið á sig, og geta sett verðið hátt. Þarna er mikilvægt að fá samkeppni og leiguþak getur dregið úr samkeppni. Það getur orðið til þess að færri ákveði að setja nýtt íbúðarhúsnæði á leigu,“ segir Kári og bætir við að hann vilji frekar sjá aðgerðir sem stuðli að auknu framboði á leigumarkaði.

Hann bendir á að leiguverð hafi aldrei verið lægra í hlutfalli við fasteignaverð og sjaldan verið lægra í hlutfalli við laun. „Þannig að mörgu leyti er betra að vera á leigumarkaði núna heldur en hefur verið undanfarinn áratug, að jafnaði.“

Kári segir jafnframt að leigufélög og hið félagslega net hafi sett þrýsting á aðra leigusala, sem væri að sínu mati heilbrigðari en sá þrýstingur sem myndi fylgja því að setja leiguþak.

„Ég held að þetta hafi komið leigjendum til góða. Þetta er enginn smá fjöldi af íbúðum, að minnsta kosti 2.000 íbúðir sem hafa komið í gegnum þetta og fleiri á leiðinni. En það þarf líka að vera hvati fyrir bæði einstaklinga og félög að auka við framboð,“ segir Kári og bendir á að nú borgi sig hvergi á höfuðborgarsvæðinu að setja nýtt leiguhúsnæði á markað. Hann hafi þó áhyggjur af því að leigufélögin muni neyðast til að setja hækkandi vaxtakostnað út í verðlagið. „Ég held að leiguverð muni hækka og hálfpartinn þurfa að hækka. Ég geri mér fulla grein fyrir því að staða margra á leigumarkaði er erfið núna, en þó hefur hún verið betri en um langt skeið,“ segir Kári.

Kári segist ekki telja að mikið verði um gjaldþrot í því árferði sem nú er fram undan. Bróðurpartur lána séu óverðtryggð lán og fólk hafi alltaf þann kost að fara í verðtryggð lán. Þá hækki laun í samræmi við verðlag til lengri tíma litið.

„Fólk er enn að standa í skilum með sín lán, og lítið um gjaldþrot. Þó verður róðurinn þungur hjá mörgum sem þurfa að draga úr heildarneyslu, sem mun hafa áhrif á hagkerfið, en fólk mun ekki í hrönnum missa húsnæði sitt. Þetta verður erfitt tímabil, sem fólk mun þurfa að þrauka í gegnum, en við munum komast í gegnum þetta,“ segir Kári, en nánar er fjallað um Dagmál í ViðskiptaMogganum í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert