„Málinu er ekki lokið“

Canexel-utanhússklæðning.
Canexel-utanhússklæðning. Skjáskot/thco.is

„Málinu er ekki lokið og langt í frá,“ segir Sveinn Guðmundsson, lögmaður Þ. Þorgrímsson & co.

Fyrirtækinu hefur verið gert að greiða samtals tæpar 19 milljónir króna í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna galla á utanhússklæðningum í fjórum aðskildum dómsmálum síðan síðastliðið haust.

Mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum

„Málið snýst um loftun. Efnið sem um ræðir er ekki tré heldur trélíki. Trélíki sem er teygjanlegt eftir veðri og því er mikilvægt að fara vel eftir öllum leiðbeiningum. Margir íslenskir verktakar eru ekkert að horfa á leiðbeiningar, þeir bara kunna til verka,“ segir Sveinn.

Hann tekur þó skýrt fram að hvorki haldi hann því fram að allir verktakar vinni með þessum hætti né geri hann lítið úr kunnáttu þeirra. Hann segir efnið sem um ræðir einfaldlega vera alveg sérstakt og það þurfi því að setja það upp með alveg sérstökum hætti eftir skýrum leiðbeiningum.

„Það er á fimmta þúsund húsa á Íslandi með þessar klæðningar og það eru örfá mál sem koma upp í tengslum við þær. Það hlýtur þá að þurfa að skoða þau mál sérstaklega.

Í málinu frá 2013 bauðst fyrirtækið til að taka niður alla klæðninguna og senda hana erlendis til rannsóknar. Fyrirtækið bauðst til að setja upp nýja klæðningu fólkinu að kostnaðarlausu en því var hafnað. Klæðningin er enn uppi á því húsi í dag og lítur ágætlega út.“

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vanir að klæða hús með timbri

Sveinn segir málinu sem lauk árið 2020 ekki hafa átt að ljúka með þeim hætti sem fór.

„Þar gat ég ekki lagt fram yfirmat í Landsrétti þar sem það byggði á nýrri málsástæðu sem var ekki höfð uppi í héraði. Það voru einfaldlega gerð mistök í því máli.“

Það koma upp atvik, að sögn Sveins, þar sem húsum hefur verið lokað algjörlega og loftskipti eiga sér ekki stað.

„Oft er um að ræða smiði sem eru vanir að klæða hús með timbri og kunna þetta alveg að þeir telja en gera þetta bara ekki með réttum hætti. Það er búið að selja þetta efni í áratugi og þetta er mjög góð vara.

Smiðir virðast ekki fylgja leiðbeiningum í einhverjum tilvikum. Leiðbeiningum um það hvernig á að ganga frá efninu við glugga og jörðu. Í sumum tilvikum er ekki einu sinni loftun í húsunum að neðan, ofan eða við glugga,“ segir Sveinn og bætir við.

„Þetta ætlum við að fá staðfest fyrir Landsrétti með yfirmati sem staðfestir okkar undirmat sem aftur staðfestir okkar sjónarmið.“

Snýst um frágang á klæðningunni

Sveinn segir efnið framleitt í mjög miklu magni í Kanada. Hann segir að það hljóti að vera eitthvað mjög sérstakt við lotukerfi framleiðslueininga þar sem verið sé að framleiða mjög mikið magn og þar sem allt sé framleitt eins og á sama tíma og ekkert annað í lotukerfinu fari úrskeiðis nema í þessum örfáu húsum.

„Hvað er þá í gangi með þessi tilteknu hús sem á að vera eitthvað að?“ spyr hann. „Þetta snýst um frágang á klæðningunni.

Það þarf að tryggja að efnið rekist ekki utan í eitthvað vegna teygjanleika þess og það þarf að tryggja að það lofti vel um klæðninguna. Þetta snýst um loftun og hvernig efnið þenst út.

Rannsóknarstofnun Byggingariðnaðarins er búin að taka þetta út, eins og liggur fyrir í gögnum málsins, en nú ætlum við að reyna að klára málið fyrir Landsrétti með þeim hætti sem við teljum rétt að gera,“ segir Sveinn Guðmundsson, lögmaður Þ. Þorgrímsson & co.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert