Hættur í VG eftir samþykkt útlendingafrumvarps

Daníel E. Arnarsson.
Daníel E. Arnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Daníel E. Arnarsson, 1. varaþingmaður Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður, skráði sig úr flokknum eftir að útlendingafrumvarpið var samþykkt í gærkvöldi.

Þetta gerði hann nokkrum mínútum eftir að þingfólk VG kaus með frumvarpinu.

Á facebooksíðu sinni segir hann frumvarpið skerða réttindi fólks sem leitar að alþjóðlegri vernd.

„Þegar ég bauð mig fram í prófkjöri VG 2021 þá var eitt af mínum áherslumálum meiri mannúð þegar kemur að þessum hópi. Ég fékk fjölda fólks til að ganga til liðs við hreyfinguna, fólk sem var mér sammála í þessum efnum og ég fékk mikinn stuðning frá þessum einstaklingum. Fyrir það verð ég ávallt þakklátur,“ skrifar Daníel, sem kveðst alla tíð hafa verið á móti frumvarpinu.

„Ég hef unnið með VG í 17 ár, lengur en hálfa ævi. Ég horfi ekki bara á VG sem stjórnmálahreyfingu heldur er fólkið í VG fjölskyldan mín, fólk sem ól mig upp. Þess vegna eru þessi skref afskaplega þung. Mér þykir enn afar vænt um fólkið í VG en því miður þá get ég ekki staðið á bakvið hreyfingu sem samþykkir skerðingu á réttindum til eins viðkvæmasta hóp samfélagsins,“ bætir hann við.

Verði hann kallaður á þing ætlar hann ekki að taka sæti heldur vísa áfram á næstu manneskju á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert