Katrín ekki búin að skila framboði

Katrín Jakobsdóttir hyggst gefa kost á sér til endurkjörs á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs, sem fram fer á Akureyri um helgina, þó hún játi að hún hafi enn ekki skilað inn framboði.

Þetta kemur fram í viðtali Dagmála við hana í dag, streymi Morgunblaðsins sem opið er öllum áskrifendum. Í því er sérstaklega rætt um heimsókn Katrínar til Úkraínu, komandi landsfund og leiðtogafund Evrópuráðsins á Íslandi í maí.

Katrín fer með allri fjölskyldunni norður og á von á fjörugum landsfundi, þó hún eigi ekki von á kosningu um æðstu embætti. Varaformaðurinn Guðmundur Ingi Guðbrandsson mun einnig leita endurkjörs, en svo verður kosið um fólk í embætti ritara og gjaldkera, eins og mbl.is hefur greint frá.

Mikil málefnavinna hefur staðið yfir í aðdraganda landsfundarins og stendur til að álykta um stórt og smátt. Katrín segir að slík vinna stjórnmálaflokka með raunverulega grasrót sé lýðræðinu afar mikilvæg.

mbl.is