Umboðsmaður vill svör frá fjármálaráðuneytinu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Samsett mynd

Umboðsmaður Alþingis óskar eftir svörum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í tengslum við tilkynningu ráðuneytisins um málefni Lindarhvols og að birting vinnuskjala ríkisendurskoðanda sé ólögmæt.

Í tilkynningu á vef umboðsmanns er bréf til ráðuneytisins birt en þar er vísað í tilkynningu ráðuneytisins frá 9. mars sem ber fyrirsögnina „Vegna umfjöllunar um málefni Lindarhvols.“ Í tilkynningunni er farið yfir nokkur atriði sem varða Lindarhvol, stofnun félagsins, eignir þess, endurskoðun og sölu eignanna.

Í bréfi umboðsmanns er horft til orðalags í tilkynningunni varðandi birtingu vinnuskjala ríkisendurskoðanda. Segir í tilkynningu ráðuneytisins: „Ólöglegt er að gera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda opinber samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ársreikninga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur úrskurðað um þetta atriði mörgum sinnum, þ.á.m. eftir að skýrslu Ríkisendurskoðunar var skilað árið 2020. Sjá nánar meðal annars úrskurði nefndarinnar nr. 826/2019827/2019967/2021978/2021 og 1041/2021.“

Spyr umboðsmaður vegna þessa hvort þarna sé átt við að birting vinnuskjala ríkisendurskoðanda sé almennt óheimil eða hvort vísað hafi verið til þess skjals fyrrverandi settur ríkisendurskoðanda sem vikið var að í tilkynningunni. „Sé það afstaða ráðuneytisins að birting vinnuskjala ríkisendurskoðanda sé almennt óheimil, og þá án þess að mat fari fram á atvikum vegna hvers og eins skjals, er óskað skýringa á þeim lagasjónarmiðum sem þar búi að baki. Að lokum er farið fram á að ráðuneytið skýri nánar hvernig niðurstaða úrskurðarnefndar upplýsingamála á þá leið að stjórnvaldi sé heimilt að synja beiðni um aðgang að gögnum geti, ein og óstudd, leitt til þess að stjórnvaldi sé skylt að synja slíku erindi,“ segir að lokum í bréfinu.

Málefni Lindarhvols hafa mikið verið í umræðunni að undanförnu. Félagið var stofnað af fjármálaráðherra árið 2016. til að hafa um­sjón með þeim eign­um sem komu til rík­is­ins í gegn­um Seðlabanka Íslands í tengsl­um við stöðug­leik­fram­lög slita­búa bank­anna. Hafði fé­lagið svo um­sjón með sölu eign­anna, en ein þeirra var hlutur ríkisins í félaginu Klakka.

Var sá hlutur seldur til félagsins BLM fjárfestinga ehf., en eigendur annars félags sem bauð í hlutinn, Frigusar II ehf., höfðuðu mál gegn ríkinu og Lindarhvoli vegna sölunnar og vildu fá bætur þar sem þeirra tilboði var ekki tekið, sem þeir töldu vera besta tilboðið.

Áður hafði Alþingi samþykkt að fela ríkisendurskoðanda að gera úttekt á málefnum Lindarhvols. Þar sem þáverandi ríkisendurskoðandi var vanhæfur í málinu var Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols. Áður en skýrsla hans var tilbúinn var Skúli Eggert Þórðarson skipaður ríkisendurskoðandi. Þar sem Skúli var ekki vanhæfur í málinu tók hann því við málefnum Lindarhvols af Sigurði.

Var skýrsla Skúla á þá leið að engar athugasemdir voru gerðar við rekstur félagsins. Ljóst var lengi að Sigurður hafði ekki verið á sömu skoðun og afhenti hann meðal annars ráðherra, Seðlabanka Íslands, Umboðsmanni Alþingis og Lindarhvoli greinargerð sína í málinu eftir að málið færðist frá honum. Kom loks formlega í ljós við rekstur máls Frigusar gegn ríkinu og Lindarhvoli hvað það var sem Sigurður hafði gagnrýnt. Sagði hann í vitnisburði sínum að hann teldi ríkið hafa orðið af um 530 milljónum við söluna á hlutnum í Klakka.

Samhliða þessu hefur hart verið deilt um birtingu greinargerðarinnar á Alþingi. Hefur fjöldi þingmanna viljað að greinargerðin yrði gerð opinber. Þá var tekin ákvörðun í forsætisnefnd í fyrra um að opinbera skyldi greinargerðina án takmarkana, en enn hefur það þó ekki verið gert. Hefur forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, borið fyrir sig að um sé að ræða vinnuskjal ríkisendurskoðanda sem óheimilt sé að birta. Svaraði hann spurningum um málið á þingi í síðustu viku og sagði að úrskurðanefnd um upplýsingamál hefði í þrígang komist að þeirri niðurstöðu að birting væri óheimil.

mbl.is