Gengið út frá því að skotvopnið tengist atburðinum

Skemmtistaðurinn The Dubliner.
Skemmtistaðurinn The Dubliner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gæsluvarðhald yfir hinum grunaða í Dubliner málinu rennur út á morgun. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir ákvörðun ekki hafa verið tekna varðandi framlengingu gæsluvarðhalds. Þá sé gengið út frá því að skotvopnið sem fannst nærri vettvangi sé það sem notað var inni á Dubliner.

Grímur segir rannsókn málsins miða vel. Aðspurður um hvernig skotvopn sé að ræða segist hann ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Þegar því er velt upp hvort að eigandi vopnsins hafi verið fundinn segir Grímur það vera hluti af rannsókninni. Hann geti samt sem áður ekki sagt til um hvort að vopnið hafi verið löglegt eða ekki.

Þá segist hann ekki getað tjáð sig um það hvað lág að baki atburðinum, málið sé þó að skýrast.

Skoti var hleypt af á barnum Dubliner sunnudagskvöldið 12. mars. Skotið hafnaði í vegg við bar­inn og hlutu tveir aðhlynn­ingu í kjöl­farið. Ann­ar þeirra hafði áhyggj­ur af heyrn sinni eft­ir at­vikið og hinn var með skrámu á höfði. Síðar kom í ljós að skrám­an tengd­ist ekki skot­inu.

Hinn grunaði var handtekinn daginn eftir, 13. mars og var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 14. mars. Um er að ræða mann um þrítugt en frekari upplýsingar um hinn grunaða liggja ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert