Tveggja ára skilorðsbundinn dómur og 713 milljóna sekt

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á sjötugsaldri, Þorkel Kristján Guðgeirsson, í tveggja ára fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum í rekstri tveggja einkahlutafélaga á árunum 2016 til 2018. Dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára. Þá er manninum gert að greiða 713 milljóna króna sekt.

Brotin voru hegningarauki við fimm mánaða skilorðsbundinn dóm frá 9. júní 2021 og var sá dómur tekinn upp og dæmdur með í þessu máli.

Þorkeli var meðal annars gert að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum á rekstarárunum 2017 og 2018, og ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sýndi af sér stórkostlegt hirðuleysi

Þótti það hafið yfir skynsamlegan vafa að að maðurinn hefði sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi við reksturinn.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Þorkell neitaði ekki sök í málinu og langt væri liðið frá því brotin voru framin. Þá hefði hann gert upp við ríkissjóð rúmlega 31 milljón króna í vangoldinn virðisaukaskatt.

Ekki var hins vegar hægt að horfa fram því að brotin voru stórfelld í skilningi almennra hegningarlaga. Þótti tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdómur því hæfileg refsing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert