„Ég vissi hvað var að fara að gerast

Snjóflóðið lenti á húsum og feykti bílum með sér
Snjóflóðið lenti á húsum og feykti bílum með sér ljósmynd/Karl Jóhann Birgisson

„Ég vaknaði við drunurnar og svo beið ég eftir smellnum. Ég vissi hvað var að fara að gerast,“ segir Karl Jóhann Birgisson íbúi við Hrafnsmýri í Neskaupstað eftir að snjóflóð lenti á húsi hans um hálf átta í morgun. 

Að sögn hans var nokkur eyðilegging sem blasti við honum eftir að ósköpin dundu yfir. „Flóðið sneyddi innri hluta hússins og rífur með sér skjólgirðingar áður en það fer yfir á næsta hús. Bíllinn minn stendur í hlaðinu og hann fór með,“ segir Karl Jóhann. Um er að ræða tveggja tonna Volvo sem mátti sín lítils gegn kraftinum í flóðinu ásamt öðrum bílum. „Það er mikið tjón hérna en sem betur fer eru allir heilir,“ segir Karl Jóhann 

Hringdu strax í 112 

Karl Jóhann segir að húsið sé byggt með tilliti til snjóflóðavarna. 

„Í minningunni voru nokkrar sekúndur sem liðu frá því ég heyrði í drununum. Ég og konan vorum á efri hæðinni og húsið okkar er byggt með tilliti til snjóflóðavarna þannig að það eru engir gluggar á norðurhliðinni og við biðum þetta af okkur. Svo hringdi ég í 112 og tilkynnti að ég væri íbúi í þessu húsnæði og snjóflóð hefði fallið og að allir íbúar í þessu húsi væru heilir,“ segir Karl Jóhann. 

Hann segir að um klukkustund síðar hafi þau verið sótt og flutt í hjálparmiðstöð sem sett hefur verið upp í félagsheimilinu Egilsbúð en þar eru nú 250 manns og enn streymir að fólk. 

„Hér er fólk að knúsast og taka þessu með stillingu. Það má ekki gleyma því að hér féll mannskætt snjóflóð árið 1974 og margir auðvitað rifja upp þá hörmung,“ segir Karl Jóhann. 

mbl.is