Eldur í Hafnar­firði, á­rekstur og grunur um ölvunar­akstur

Verkefni lögreglunnar voru fjölbreytt í kvöld. Mynd úr safni.
Verkefni lögreglunnar voru fjölbreytt í kvöld. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Fyrr í kvöld kviknaði eldur í íbúð í Norðurbæ Hafnarfjarðar. Töluverðar skemmdir eru á íbúðinni en lögregla vinnur nú að rannsókn málsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Samkvæmt umfjöllun Vísis urðu engin slys á fólki og var eldurinn að mestu í einni íbúð fjölbýlishússins.

Hvað varðar önnur störf lögreglu í kvöld kemur fram að karlmaður hafi verið handtekinn um klukkan 18.14 grunaður um ölvunarakstur og verði vistaður í fangageymslu í nótt vegna málsins. Börn mannsins eru sögð hafa verið í bifreiðinni en vegna þessa verði málið unnið í samvinnu við barnaverndaryfirvöld.

Þá hafi áreksturinn sem að varð á Vesturlandsvegi fyrr í kvöld orðið þegar bifreið var ekið aftan á aðra kyrrstæða.

„Ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar slasaðist talsvert í andliti. Ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar var að bíða eftir umferð sem ekið var á móti áður en hann gat beygt út af veginum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is