Hvernig komumst við á þennan stað?

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Hákon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðu um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að honum finnist umræða um hlut Alþingis í að veita ríkisborgararétt með lögum hafi farið í einhvern nýjan farverg sem sé alveg óskyldur því sem átt hefur við sögulega.

Vantrauststillagan hlaut ekki framgang og var felld í atkvæðagreiðslu.

Stofnunin hafði ekki lokið verkinu

Hann sagði það hafa verið grundvallaratirði að mál hefðu fengið efnislega meðferð í stjórnkerfinu og að það lægju fyrir allar umsagnir og að þingið vildi ekki koma að málum fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar væru fengnar úr stjórnkerfinu, meðal annars frá lögreglu eftir atvikum og öðrum þeim sem gátu veitt umsögn og áttu að gera það lögum samkvæmt. Hann sagði það mjög ljóst af öllum lögskýringargögnum og hafi verið þannig um árabil og áratugaskeið.

Hann sagði tilvikið sem um ræðir snúast um að stofnunin sem hefur það hlutverk að undirbúa gögnin fyrir þingið hafi ekki lokið því verki en þingið krefjist þess að fá málið í sínar hendur.

„Ég spyr mig bara: Hvernig komumst við á þennan stað?“

Bjarni velti fyrir sér hvernig þingið gat endað á þeim stað við afgreiðslu á þessum málum að það gat bara ekki beðið eftir því og gat ekki sætt sig við að bíða eftir því að niðurstaða fengist frá þeirri stofnun sem ávalt hefur verið treyst á til þess að undirbúa og veita umsögn um málin og veitir leiðbeiningu til að menn geti tekið góðar ákvarðanir á þinginu.

Þá sagði hann liggja fyrir að hafi menn viljað fá hrá gögnin hafi það staðið til boða. Hann sagði þingið ekki vilja sætta sig við það og vilji fá umsögnina án tafar.

„Hér erum við komin út í algjörar ógöngur. Þar með erum við farin að þvæla saman lagasetningu sem fer fram hér og þessari stjórnsýslulegu meðferð sem á að eiga sér stað hjá framkvæmdavaldinu. Þetta er í raun og veru kjarni vandans og er tilefni þessarar vantrauststillögu. Að ráðherra skuli ekki hafa skipað stofnuninni að undirbúa sjálfstæða umsögn til þingsins þannig að þingið gæti tekið afstöðu til málsins,“ sagði Bjarni og hélt áfram.

„Ég verð að leyfa mér að spyrja: Hvað liggur svona mikið á? Hvað er að því að mál fái vinnslu í tímaröð eftir því sem umsóknir berast? Margir fá ríkisborgararétt á grundvelli þess að uppfylla skilyrði sem ákveðin eru með lagasetningu. Sumir fá neitun og þá er efnislegri meðferð lokið. Þá getur þingið tekið málið, með neitunina fyrir framan sig, til skoðunar og velt fyrir sér hvort það sé ástæða til að vinda ofan af því.“

Er einhver að hugsa um fólkið?

Bjarni sagði að sér fyndist mjög til umhugsunar, þegar sú ákvörðun ráðherrans að verða ekki við beiðni um sérstaka flýtimeðferð sumra umsókna fyrir þingið, endi í vantrauststillögu.

Þá sagði hann að enginn ræðumaður hafi talað um rétt umsækjandans. Hann sagði alla upptekna af kerfinu og af rétti Alþingis.

„Hvað með fólkið sem lagði fram beiðnirnar? Er einhver að hugsa um það fólk? Að það fái vandaðan og yfirvegaðan undirbúning þannig að komist sé að réttri niðurstöðu? Trompar kerfið fólkið sem þarf að treysta á að kerfið virki? Ég held ekki.

Ég held að það verði nær að huga að lögum um það hvernig ríkisfang verður veitt á Íslandi og að það sé endurheimt gamla verklagið sem snérist um það að Alþingi fær umsagnir fyrst þegar búið er að fara yfir þær í stjórnkerfinu og taka saman öll nauðsynleg gögn,“ sagði Bjarni.

Engin bráð hætta fyrir dyrum

Hann sagði Alþingi ekki vera stjórnsýslustofnun og að þingið eigi að gefa sér tíma og gefa stofnunum tíma til að fara yfir mál.

Hann vakti athygli þingheims á að í mjög stórum hluta þeirra tilvika sem koma til kasta Alþingis þá væri engin bráð hætta fyrir dyrum hjá umsækjandanum og sagði að í langflestum tilvikum hafi viðkomandi dvalarleyfi og jafnvel atvinnuleyfi. Hann sagði enginn vera að falla á fresti þannig að honum verði vísað úr landi fyrir það eitt að hafa ekki fengið ríkisfang.

„Þannig að rökin fyrir því að Alþingi fari að breyta sé í þá stofnun sem við höfum falið sérstaklega þetta hlutverk hjá framkvæmdavaldinu eru ekki til staðar. Þetta samhengi finnst mér hljóta að þurfa að vera uppi á borðum þegar menn velta fyrir sér því tilefni sem er hér orðin grundvöllur af vantrauststillögu á ráðherra.“

Langsótt tilraun byggð á pólitík

Bjarni sagði vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar afar langsótta tilraun sem í hans huga byggi fyrst og fremst á pólitík og á því að fólk sé í grundvallaratriðum pólitískt ósammála áherslum ráðherrans. Hann sagði að sé fyndist það alveg geta verið gild rök.

„Ég hef sjálfur notað þau rök í vantrauststillögu. Maður er ósammála pólitískri stefnumörkun og maður þarf bara að kalla fram breytingu. En þessi rök sem verið er að nota hér þau duga ekki og það að þau séu komin hér til afgreiðslu í þinginu ætti að vera okkur ríkt tilefni til að taka þennan málaflokk til heildarendurskoðunar, það er að segja verklagið við aðkomu Alþingis að veitingu ríkisborgarréttar.

Menn ættu að lesa framsöguræðu dómsmálaráðherra þess tíma og hvers vegna var verið að skerpa á skilyrðum þess að fólk gæti fengið ríkisborgararétt frá viðkomandi stofnun og hvaða ástæður voru til þess að önnur mál ættu að koma til þingsins,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert