Áskorun að 27% vilji búa erlendis

Heiða Björg Hilmisdóttir kom víða við í ávarpi sínu á …
Heiða Björg Hilmisdóttir kom víða við í ávarpi sínu á landsþinginu og kvað það meðal annars áhyggjuefni að í viðhorfskönnun ungs fólks hefðu 27 prósent lýst yfir vilja sínum til að búa erlendis er fram líða stundir. mbl.is/Margrét Þóra

Fjármagnskostnaður hefur hækkað mikið og sama á við um verðlag á byggingarefnum og raunar verðlag almennt,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í opnunarávarpi sínu á landsþingi sambandsins á Grand hóteli í Reykjavík sem nú stendur yfir.

Ræddi Heiða þar um húsnæðismál eftir að hafa boðið þinggesti velkomna og minnt á að sést hefði til lóunnar nýverið og því skammt að bíða hlýrri daga en nú hafa verið.

Kvað hún það mikil tímamót þegar fulltrúar sambandsins, innviðaráðuneytis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar undirrituðu rammasamning um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þar hefði lykilþáttur verið að sveitarfélögin kæmu með í þá vegferð en hætt væri við að framangreindar kostnaðarhækkanir hægðu að einhverju leyti á uppbyggingaráformum samtímis því sem mikill húsnæðisskortur þyngdi nú mörgum. „Það er mikilvægt að við fáum hér tækifæri til að ræða málin og metum stöðuna,“ sagði Heiða.

Níu sveitarfélög – 6.000 flóttamenn

Þá ræddi hún málefni flóttafólks og hælisleitenda sem verið hefðu á borði sambandsins. „Áætlað er að í ár komi allt að 6.000 einstaklingar hingað í leit að alþjóðlegri vernd. Nú hafa níu sveitarfélög skrifað undir samning um samræmda móttöku flóttafólks og er fjöldinn sem þessi sveitarfélög taka á móti tæp 3.000. Það er virkilega vel gert og mér finnst þessi sveitarfélög eigi öll mikið hrós skilið því þetta er flókið verkefni en það skapar líka tækifæri fyrir samfélög að vaxa og þroskast,“ sagði formaðurinn af þeim vettvangi.

Íslenskum sveitarfélögum væri það þó mikilvægt að fleiri sveitarfélög legðu móttöku flóttafólks lið eftir getu og möguleikum og kvaðst Heiða leyfa sér að fullyrða að sveitarfélög væru heppilegri aðilar í að styðja fólk til þátttöku en ríkisvaldið. Þar væri nauðsynlegt að halda vel á spöðunum.

Fjárhagsstaða íslenskra sveitarfélaga er veik undir niðri og þriðjungur þeirra …
Fjárhagsstaða íslenskra sveitarfélaga er veik undir niðri og þriðjungur þeirra uppfyllir ekki lágmarksviðmið. Það hefur þó ekkert með efni þessarar myndar að gera sem er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breytt nálgun í þjónustu sveitarfélaga í þágu farsældar barna væri enn fremur eitt stefnumála sambandsins og að henni unnið hvort tveggja á vettvangi þess og einstakra sveitarfélaga. Sagðist Heiða binda miklar vonir við tillögur starfshóps um bætta þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem vafalítið yrðu vatn á myllu góðrar og viðeigandi þjónustu á þeim vettvangi.

Óvænt tilkynning frá ráðuneytinu

„Ég vil líka nefna eitt af mikilvægustu þingmálum sem samþykkt voru á síðasta ári sem var að innleiðingartímabil notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, NPA, var framlengt um tvö ár og markmið sett um að fjölga NPA-samningum markvisst á þessu og næsta ári. Mikil sátt náðist um þessar breytingar og var alger samhljómur með samtökum fatlaðs fólks og sveitarfélögum um að hér væri um mikið réttlætismál að ræða,“ hélt Heiða áfram.

Hins vegar sagði hún ákveðinnar óþolinmæði gæta við að sjá fjölgun þessara samninga verða að raunveruleika. Ágætt samtal við félagsmálaráðherra í lok janúar hafi verið undanfari óvæntrar tilkynningar frá ráðuneytinu í kjölfarið, um að hlé yrði gert á staðfestingu nýrra NPA-samninga þar til fyrirkomulagið hefði verið endurskoðað.

„Nú sér sem betur fer loksins fyrir endann á þeirri bið. Endurskoðun fer í gang en mun ekki fresta fjölgun samninga í ár og í dag mun sveitarfélögum berast bréf þess efnis að ráðuneytið staðfestir að farið verði í áður kynnta fjölgun samninga,“ tilkynnti Heiða.

Töluverður afkomubati, en...

Ræddi hún því næst um fjárhagsstöðuna og nefndi þar að þótt áætlanir flestra sveitarfélaga fælu í sér töluverðan afkomubata frá fyrri árum hefði yfirferð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga á fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna leitt til þeirrar niðurstöðu að 20 sveitarfélög uppfylltu ekki lágmarksviðmið reglugerðar, en sá fjöldi nemur um þriðjungi sveitarfélaga. „Þetta segir sannarlega sína sögu um undirliggjandi veika fjárhagsstöðu sveitarstjórnarstigsins,“ sagði Heiða.

Flóttafólk frá Úkraínu við mótmæli við rússneska sendiráðið í maí. …
Flóttafólk frá Úkraínu við mótmæli við rússneska sendiráðið í maí. Heiða segir níu sveitarfélög hafa skrifað undir samning um samræmda móttöku flóttafólks og er fjöldinn sem þessi sveitarfélög taka á móti tæplega 3.000. Æskilegt væri að fleiri sveitarfélög legðu þar gjörva hönd á plóg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvað hún forsendur um verðbólgu hafa brugðist algjörlega, í stað fimm til sex prósenta bentu spár til að hún yrði á bilinu átta til tíu prósent. „Spár eru auðvitað bara spár og raunveruleikinn hefur leikið ítrekað á spárnar að undanförnu. Vaxtahækkanir Seðlabanka eru að bíta, þær bitna kannski helst á skuldsettu eða tekjulágu fólki og fyrirtækjum. En skuldsett sveitarfélög fara ekki heldur varhluta af þessari þróun, fjármagnskostnaður eykst verulega sem og allur aðfangakostnaður og þrýstingur á launahækkanir eykst.“   

Lagði Heiða áherslu á hve mikilvægt það væri að vel tækist við að byggja upp og styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi. Þetta væri ekki bara eitthvað sem stjórn sambandsins fyndist heldur hefði það nýlega komið fram í viðhorfskönnun sem gerð var meðal fólks á aldrinum 16 til 20 ára að 27 prósent þess vildu helst búa í útlöndum í framtíðinni en 44 prósent kysu hins vegar að búa á höfuðborgarsvæðinu.

Samkeppni við önnur lönd

„Þegar þau eru spurð að því hvað það er sem hefur áhrif á val um búsetu segja flest að það sé atvinna, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun, húsnæði og bara aðgengi að þjónustu. Sjötíu og tvö prósent fólks á aldrinum 16 til 20 ára segja að gæði þjónustu sveitarfélagsins skipti þau miklu máli við val á framtíðarbúsetu, sem sannar enn og aftur að ef við ætlum okkur að halda í fólkið okkar þá þurfum við öflug sveitarfélög um land allt. Við erum ekki í samkeppni um fólk við hvort annað við erum í samkeppni við önnur lönd,“ sagði Heiða af viðhorfskönnuninni og niðurstöðum hennar. Samvinna væri ekki eitthvað sem ein manneskja sinnti.

Undir lok ávarps síns boðaði Heiða breytingar á starfsemi sambandsins. Karl Björnsson framkvæmdastjóri léti af störfum í apríllok fyrir aldurs sakir, en Karl hefur gegnt stöðu sinni allar götur síðan 2008.

Karl Björnsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, uppskar dynjandi lófaklapp …
Karl Björnsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, uppskar dynjandi lófaklapp á landsþinginu fyrir óeigingjörn störf í 15 ár. Ljósmynd/Samband íslenskra sveitarfélaga

„Það verður mikill sjónarsviptir af honum á vettvangi sveitarstjórnarmála. En Kalli hefur allan sinn starfsferil lifað og hrærst í sveitarstjórnarmálum. Vil ég þakka honum persónulega fyrir samstarfið og einnig vil ég þakka honum fyrir ötullega baráttu fyrir hagsmunum sveitarfélaga undanfarna áratugi,“ sagði Heiða og uppskar dynjandi lófatak þegar hún bauð þinggestum að klappa fyrir ötulu starfi Karls. Nýr framkvæmdastjóri yrði kynntur til leiks í fyllingu tímans.

Sameiginlegt markmið að bæta þjónustu

„Við ætlum okkur að taka virkari þátt í opinberri umræðu, leggja meiri áherslu á upplýsingöflun og -miðlun og styðja við starfsemi sveitarfélaga um allt land. Styðja sveitarfélögin með það sem þau þurfa og leita lausna eins og við höfum gert með verkfærakistum, færanlegum starfsmönnun og aðstoð,“ sagði formaðurinn í lokaorðum sínum.

Meginmarkmið sambandsins yrði ávallt að veita góða þjónustu við sveitarfélögin og reka öfluga hagsmunabaráttu fyrir málefnum þeirra enda væri sameiginlegt markmið að bæta þjónustu við fólkið í landinu. „Það gerum við hvert í okkar sveitarfélagi en líka í samvinnu á þessum vettvangi. Ég mun eftir páska hefja heimsóknir til sveitarfélaga og hlakka mikið til að heimsækja ykkur öll og fræðast og læra,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að lokum í ávarpi sínu á landsþinginu í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert