Um­boðs­maður óskar eftir frekari út­skýringum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Samsett mynd

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir frekari upplýsingum frá fjármálaráðherra vegna birtingu vinnuskjala og þagnarskyldu. Þess er krafist að svar berist eigi síðar en 12. apríl næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umboðsmanni.

Þann 17. mars síðastliðinn óskaði Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon eftir skýringum á tilkynningu sem að fjármála- og efnahagsráðuneytið birti vegna umfjöllunar um Lindarhvol. Þörf hafi verið á að skýra þá fullyrðingu að ólöglegt sé að gera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda opinber.

Í svari ráðuneytisins þann 27. mars til Umboðsmanns  kemur fram að vegna sérstakra þagnarskylduákvæða sé stjórnvöldum að jafnaði ekki heimilt að veita aukinn aðgang að upplýsingum sem falli undir fyrrnefnd þagnarskylduákvæði.

„Enda ráði stjórnvaldið ekki sjálft þeim hagsmunum sem þagnarskyldunni er ætlað að vernda. Stjórnvöldum ber að meta í hverju tilviki hvort skjal falli, í heild eða að hluta, undir sérstök þagnarskylduákvæði laga.“

Í kjölfar svars ráðuneytisins hefur Umboðsmaður nú óskað eftir svari hvað varðar það hvort að fyrri tilkynning ráðuneytisins sé í samræmi við þau sjónarmið sem komi fram í fyrrnefndu svari til Umboðsmanns.

Þá er því velt upp hvort að ráðuneytið hafi rætt að breyta tilkynningunni í takt við svar til Umboðsmanns.

mbl.is