Stendur ekki til að lækka launin

Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar.
Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar, og Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, segja í samtali við mbl.is að ekki standi til á þessari stundu að lækka laun bæj­ar­full­trúa og nefnd­ar­manna enn frekar, en laun voru lækkuð um 5% í upphafi árs.

Tóm­as Ell­ert Tóm­as­son, fyrr­ver­andi bæj­ar­full­trúi Árborg­ar, vakti athygli á því í grein á vef Sunnlenska á þriðjudag að eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta í júní var að hækka laun Braga um 210%. 

Lýstu furðu sinni

Í vikunni hefur verið fjallað um bága fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og í gær var haldinn íbúa­fund­ur þar sem Bragi ásamt bæj­ar­stjóra Árborg­ar, Fjólu Stein­dóru Krist­ins­dótt­ur, svaraði fyr­ir stöðu fjár­mála sveit­ar­fé­lags­ins.

Í fundargerð frá 8. júní segir að fimm bæjarfulltrúar minnihlutans hafi lýst furðu sinni vegna hækkunarinnar og að það sé „grafalvarlegt að slík grímulaus sjálftaka skuli vera fyrsta verk nýs meirihluta“.

Með þessari hækkun ásamt bæjarfulltrúalaunum og formennsku í tveimur nefndum er formaður bæjarráðs að tryggja sér rúmar 1,4 milljónir króna í laun á mánuði. Ekki liggur fyrir í hverju þessu auknu verkefni formanns bæjarráðs felast og hvað hefur breyst á þeim örfáu vikum sem liðnar eru frá því að síðasta kjörtímabili lauk,“ segir í fundargerðinni. 

Hækkað til samræmis við vinnuframlag 

Bragi nefnir að öll laun kjörinna fulltrúa voru endurskoðuð á síðasta kjörtímabili og í upphafi þessa kjörtímabils voru laun formanns bæjarráðs endurskoðuð í samræmi við hlutverk og störf stöðu formanns. 

Bragi segir að starfið sé ekki hlutastarf og því var lagt upp með að sá sem leiðir bæjarráð geti gert það og einbeitt sér að því. 

Kjartan segir að miðað við stærð sveitarfélagsins og fjölda verkefna sem formaður bæjarráðs sinnir sé um eðlilega þróun að ræða. Í byrjun þessa árs bjuggu 11.239 einstaklingar í Árborg og hafði þeim fjölgað um 3,7% á milli ára. 

„Ég hef verið í bæjarstjórn nokkuð lengi. Miðað við stærð og þróun sveitarfélagsins þá er þetta einfaldlega þannig að pólitískt kjörnir fulltrúar þurfa að sinna þessu mörgum sinnum meir,“ segir Kjartan. 

Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar Áborgar.
Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar Áborgar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Bragi segir að eina hækkunin sem ráðist var í var á þingfararkaupinu sem fór úr 21% í 61,75%. Þóknanir bæjarfulltrúa í Árborg eru miðuð við þingfarakaup 1. júlí 2021 sem er 1.285.411 krónur. 

„Annað fylgir samþykktum og reglugerðum sveitarfélagsins,“ segir hann og nefnir að síðan þiggi hann bæjarfulltrúarlaun og sinni nefndarstarfi líkt og aðrir bæjarfulltrúar. 

Ein og hálf milljón ekki rétt tala 

Bragi nefnir að er laun voru lækkuð í byrjun þessa árs þá náði sú lækkun yfir allar þóknanir kjörinna fulltrúa. 

„Við vildum stíga strax fram og ráðast í launalækkun,“ segir hann og bætir við að ekki verði ráðist í neinar hækkanir sem voru fyrirhugaðar samkvæmt launavísitölu á þessu ári. „Í rauninni erum við að tala um meira þegar upp er staðið.“

Kjartan segir að ráðist var í lækkunina til að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem sveitarfélagið er nú í. 

„Það eru allir að róa í sömu átt – allir í bæjarstjórninni – og vonandi tekst okkur að vinna okkur í gegnum þennan skafl sem að við erum með fyrir framan okkur núna,“ segir Kjartan. 

Í byrjun þessa árs bjuggu 11.239 einstaklingar í Árborg og …
Í byrjun þessa árs bjuggu 11.239 einstaklingar í Árborg og hafði þeim fjölgað um 3,7 á milli ára. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurður hvort að sú tala sem Tómas setti fram um að Bragi fái um eina og hálfa milljón í laun og þóknanir á mánuði sé rétt segir Bragi svo ekki vera. 

„Ég hef nú aldrei náð þessari launatölu og enn síður í dag eftir lækkunina,“ segir hann og nefnir að misoft sé fundað hjá ákveðnum nefndum og þóknun því mismunandi. 

Gæti versnað áður en ástandið batnar 

Spurður hvernig hljóðið var í bæjarbúum á íbúafundinum í gær segir Bragi það heilt yfir vera jákvætt. 

„Heilt yfir finnst mér umræðan hafa verið góð eftir fundinn. Við náðum að upplýsa fólk og ég heyri það á fólki að það er þakklátt fyrir að vera upplýst og vita hvernig staðan er raunverulega og að það séu aðgerðir í vændum.“

Kjartan segist hafa áhyggjur af því að staðan muni aðeins versna á næstu misserum áður en hún batni í ljósi verðbólgunnar. 

Bragi segir að lokum að verkefnið framundan sé að klára aðgerðaáætlun.

„Þetta er krefjandi verkefni en ég veit að við komumst í gegnum það,“ segir Bragi og er Kjartan samsinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert