Strákarnir ekki alltaf vandamálið

Áslaug Arna á ráðstefnu um netöryggi fyrirtækja í heimi sívaxandi …
Áslaug Arna á ráðstefnu um netöryggi fyrirtækja í heimi sívaxandi netárása fyrir rúmum mánuði. Hún boðar átak til að laða fólk að háskólum en þar er netöryggi einmitt að líta dagsins ljós sem námsgrein. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sagði að háskólarnir mættu ekki þróast í þá átt að verða elítuskólar, mér fyndust ákveðnar vísbendingar uppi um að skólakerfið endurspeglaði samfélagið okkar ekki nægilega vel,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is, spurð út í framangreind ummæli sín í Silfri Egils Helgasonar í dag og stöðu mála í háskólum landsins almennt.

„Stór hluti háskólanemenda í dag, til dæmis í Háskóla Íslands, eru konur og strákarnir skila sér ekki nægilega vel inn í háskólana, eins og í löndunum sem við berum okkur saman við,“ heldur ráðherra áfram og segir það óæskilegt að háskólakerfið endurspegli ekki fjölbreytileika samfélagsins.

„Við sjáum núna ákveðnar vísbendingar í þá átt og ég var að vara við því [hjá Agli] að það myndi gerast. Samfélagið er blessunarlega orðið mjög fjölbreytt og við viljum að allir hafi sömu tækifæri til að mennta sig og við verðum að átta okkur á því að kerfið er að bregðast ákveðnum hópum.“

Fleiri foreldrar í okkar háskólum

Segir Áslaug þar einkar brýnt að líta til drengja en ekki síður til fólks af erlendum uppruna. „Staða drengja á landsbyggðinni er líka töluvert verri en þeirra á höfuðborgarsvæðinu og ég var að varpa ljósi á þessa stöðu. Þó eru nokkur svið sem við stöndum betur á en aðrar þjóðir, til dæmis eru fleiri foreldrar í okkar háskólum og fleiri háskólanemar hjá okkur eru fatlaðir,“ segir ráðherra.

Háskóli Íslands. Íslendingar standa framar mörgum öðrum þjóðum þegar kemur …
Háskóli Íslands. Íslendingar standa framar mörgum öðrum þjóðum þegar kemur að háu hlutfalli foreldra í háskólum og eins fatlaðra nemenda. mbl.is/Ómar Óskarsson

Telur hún margt benda til þess að áherslur síðustu áratuga, um að konur fari í háskóla og barneignir eigi ekki að vera þar takmarkandi þáttur, hafi skilað sér ágætlega út í íslenskt samfélag, næsta sókn þurfi að vera á vettvangi ungra karlmanna úti á landi og fólks sem ekki er fætt á Íslandi.

Hvaða skýringar telur ráðherra búa því að baki að ungir menn á landsbyggðinni standi höllum fæti gagnvart sókninni í háskóla landsins?

„Ég hugsa að rótin gagnvart strákunum liggi mjög snemma í skólakerfinu,“ svarar Áslaug Arna, „þegar við skoðum ástæður þess að fólk almennt hættir í framhaldsskóla sjáum við ákveðna þætti sem þar liggja að baki, menntun foreldra, stuðning heima fyrir, uppruna og aðra félagslega þætti. En þegar litið er til strákanna sérstaklega er það námsárangur sem er stærsta ástæðan þar, þeir sjái ekki tilganginn með menntuninni og finni ekki áhuga sínum farveg,“ segir hún.

Lýjandi að hlusta á að þeir séu alltaf vandinn

Við slíkar aðstæður þurfi þor til að horfast í augu við og einnig viðurkenna og að lokum hætta að tala um að strákarnir séu alltaf vandamálið. „Kerfið er vandamálið. Það er líka lýjandi fyrir stráka að hlusta alltaf á að þeir séu vandamálið. Ég myndi ætla að við gætum horfst í augu við að það er eitthvað að í kerfinu sem gerir það að verkum að strákarnir okkar ná ekki meiri árangri í lestri, ekki meiri námsárangri en raun ber vitni og skili sér ekki inn í háskólana,“ segir ráðherra með festu.

Háskólinn í Reykjavík. „Ég held að við þurfum þá að …
Háskólinn í Reykjavík. „Ég held að við þurfum þá að skoða það vandlega gagnvart kerfinu og Menntasjóði námsmanna hvort við þurfum ekki að hækka frítekjumarkið gagnvart atvinnutekjum og leyfa fólki að vinna meira,“ segir ráðherra. mbl/ Ómar Óskarsson

Þar með boði hún ákveðið átak í þeim efnum að laða nemendur að háskólunum, ofan á alla eigin markaðssetningu og kynningu háskólanna, sem nú sé verið að hleypa af stokkunum. „Átakið mitt beinist að öllum, óháð því um hvaða nám eða hvaða háskóla er að ræða, og er byggt upp á þeim rannsóknum og könnunum sem við höfum nú gert meðal drengja í framhaldsskólum og þeirra sem verið hafa lengi í hléi frá námi,“ útskýrir Áslaug Arna.

Er einhver rauður þráður í útkomunni úr þessum könnunum?

„Við báðum Rannsóknir og greiningu að vinna könnun núna í apríl fyrir ráðuneytið, fyrir nemendur sem eru að ljúka stúdentsprófi núna, og gegnum hana sjáum við að áhugi kynjanna á háskólum er svipaður en strákar svara í mun meira mæli að þeir ætli að fara seinna í háskólanám,“ svarar viðmælandinn.

Brautskráning frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Ráðuneytið lagði könnun fyrir stúdenta …
Brautskráning frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Ráðuneytið lagði könnun fyrir stúdenta vorsins og greinir Áslaug Arna frá niðurstöðum hennar. Ljósmynd/Árni Torfason

Greina megi vissan ótta hjá karlkyns svarendum, þeir komi síður auga á möguleikana sem háskólanám bjóði og óttist um leið að þrengja eða draga úr möguleikum sínum. Einnig segist margir þeirra óttast að hafa ekki efni á að fara í háskólanám og þar megi greina reginmun á svörum karlkyns og kvenkyns stúdentsefna þessa vors.

Gamaldags fyrirvinnuhugmyndir?

„Þá er áhugavert að spyrja hvort þarna séu einhverjar gamaldags fyrirvinnuhugmyndir eða þeir telji að skólakerfið hamli öðrum tækifærum og því að geta unnið fyrir sér. Ég held að við þurfum þá að skoða það vandlega gagnvart kerfinu og Menntasjóði námsmanna hvort við þurfum ekki að hækka frítekjumarkið gagnvart atvinnutekjum og leyfa fólki að vinna meira,“ veltir Áslaug Arna fyrir sér.

Hverjar skyldu áherslur hvatningarkerfisins í megindráttum verða?

„Átakið beinist svolítið að því að heimurinn stækkar við að fara í háskóla, þú fjölgar tækifærum til fjölbreyttari starfa í samfélaginu. Fyrirmyndirnar eru ekki þessir framúrskarandi nemendur sem geta allt heldur meira þessi fjölbreytti hópur sem hefur kannski verið lengi í framhaldsskóla, kannski gert hlé á námi, en einmitt komið auga á hvers vegna það borgi sig að fara í háskóla,“ segir ráðherra.

„Þú fjölgar tækifærum til fjölbreyttari starfa í samfélaginu,“ segir ráðherra …
„Þú fjölgar tækifærum til fjölbreyttari starfa í samfélaginu,“ segir ráðherra um nám á háskólastigi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átakið kveður hún hefjast af fullum krafti áttunda maí en þegar sé búið að kynna það fyrir háskólunum, stúdentahreyfingunum og fleirum. „Það verður í gangi í þrjár vikur og er ætlað að glæða áhuga, til dæmis stráka sem hafa kannski hugsað sér að vera lengur í hléi frá skóla. Það er ekki samfélaginu til góðs að við eigum Evrópumet í að ungir strákar séu ekki í námi. Okkur langar að sýna þeim nám í því ljósi að það greiði þeim leið inn í spennandi framtíð og efli getu þeirra, líðan og stöðu og þá er mjög mikilvægt að háskólarnir haldi vel utan um nýnema,“ segir Áslaug Arna enn fremur.

Nám í tölvuleikjagerð og netöryggi

Greinir hún í því sambandi frá leiðum til að aðstoða nemendur við að koma betur undirbúnir til háskólanáms, svo sem á sviði tækni-, vísinda- og stærðfræðigreina. „Við erum líka að byrja með nýjar námsleiðir eins og í tölvuleikja- og kvikmyndagerð og netöryggi og fleiri greinar sem vonandi glæða áhuga fólks og þörf er á í samfélaginu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að lokum, ákveðin í að laða fleira ungt fólk að háskólum sem muni leggja sitt lóð á vogarskál þess að endurspegla fjölbreytileika íslensks samfélags.

mbl.is

Bloggað um fréttina