Fagnaðar­efni þegar leið­togar koma saman

Þingmaður Viðreisnar segir nefndadaginn sem kom til vegna leiðtogafundarins hafa komið sér vel á þingi. Þá segir hann mikilvægi alþjóðasamstarfs og samtal leiðtoga mikið og vonast til þess að tjónaskráin verði að veruleika.

 Hvaða starfsemi er í gangi á Alþingi í tengslum við leiðtogafundinn?

„Þingið heldur áfram starfsemi sinni á meðan að fundurinn er í gangi, kannski með pínulítið breyttu sniði. Þingfundur var aðeins styttri í gær heldur en venjulega en svo eru nefndardagar í dag, nefndirnar hafa verið á fullu þótt að fundurinn hafi verið. Þannig að mér finnst nú bara þingið hafa haldið vel áfram að starfa þrátt fyrir að það sé auðvitað svolítil röskun út af þessum fundi en þingmenn eru nú almennt svolítið skilningsríkir gagnvart því. Menn styðja það auðvitað að þessi fundur gangi vel fyrir sig og það komi einhver góð niðurstaða úr þeim fundi ekki síst með tilliti til Úkraínu,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, í samtali við fréttamann mbl.is.

Alþjóðasamvinna mikilvæg

Hvers konar röskun hefur verið á starfseminni?

„Mér finnst hún ekki hafa verið mikil. Þessum degi var breytt í nefndadag en það er bara vel til fundið vegna þess að það er mjög mikið álag á nefndum þingsins akkúrat núna því það er stutt í þinglokin. Sumar nefndir með mjög mörg óafgreidd mál inni hjá sér þannig ég held að þessi nefndardagur sem að var dæmdur á í staðinn fyrir þingfundardag eigi eftir að nýtast betur heldur en ef að verið hefði þingfundardagur.“ 

Hvaða þýðingu telurðu að fundurinn muni hafa?

„Ég tel að hann geti haft mjög mikla þýðingu. Það hlýtur alltaf að vera ótrúlegt fagnaðarefni þegar leiðtogar koma saman af tilefni sem þessu og fari yfir málin og reyni að komast að einhverri góðri niðurstöðu til þess að knýja á um, sérstaklega náttúrulega góða lausn þegar það kemur að stríðinu í Úkraínu. Mér finnst frábært að hann sé haldinn hérna á Íslandi, þetta er í þriðja eða fjórða skiptið sem að Evrópuráðið fundar með þessum hætti.

Ég held það sé alltaf gott þegar að þjóðarleiðtogar tala saman og hittast í persónu. Ég er auðvitað í flokki sem að talað mjög mikið fyrir alþjóðasamvinnu á sem flestum vígstöðvum þannig mér finnst frábært að fylgjast með þessum fundi. Ég tel að þetta hafi nú að mestu leyti gengið mjög vel fyrir sig, það er auðvitað smá skuggi yfir því að það eru alltaf þessar netárásir hangandi yfir okkur. Það auðvitað hafði áhrif á starfsemi þingsins hér í gær þegar vefur Alþingis lá niðri, það getur haft áhrif á þingstörfin og það hafði í einhverjum tilfellum held ég svona minniháttar áhrif á nefndarstörf. Ég er bara vongóður um það að það komi eitthvað gott og mikið úr þessum fundi, þetta er mjög gott fyrir okkur að geta haldið svona stóran fund og gert það svona vel.“

Einhugur í leiðtogunum

Hvað vonast þú til þess að sjá?

„Ég vonast til þess að sjá það að þessi tjónaskrá verði að veruleika og að það allt saman verði útfært þannig við vitum nákvæmlega hvar við stöndum þegar við erum að gera upp þennan ömurlega atburð, að eitt ríki ráðist inn í fullvalda ríki með stríðsátök og vopnaglamur. Það er svona fyrst og fremst það sem ég vonast til þess að sjá koma út úr þessu. Svo er þetta auðvitað líka út á við alltaf tákn um mikla samstöðu þegar menn koma saman og það hefur auðvitað verið svona svolítill svona einhugur í leiðtogunum,“ segir Sigmar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert