Tjónaskrá Úkraínustríðsins stofnsett

Denis Malyuska, dómsmálaráðherra Úkraínu, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Marija Pejčinović …
Denis Malyuska, dómsmálaráðherra Úkraínu, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, fylgjast með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra undirrita yfirlýsingu um stofnun tjónaskrárinnar. Morgunblaðið/AM

Gengið var frá stofnsetningu tjónaskrár Evrópuráðsins með undirritun í Hörpu nú í morgun. Miðað er við að tjónaskráin verði starftækt í þrjú ár, fyrsta kastið a.m.k., en þar má skrá gögn og kröfur vegna tjóns, taps eða miska af völdum innrásar Rússa í Úkraínu.

Þar voru saman komin þau Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu og Denis Malyuska, dómsmálaráðherra Úkraínu.

Alls hafa 43 ríki og Evrópusambandið undirritað eða greint frá fyrirætlunum um það vera aðilar að tjónaskránni, en nokkur lönd þess hafa skorist úr leik. Þar á meðal eru Tyrkland og Ungverjaland, sem bæði eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO), en einnig ætla Armenía og Azerbajdshan, Serbía og Bosnía að halda sig utan við hana.

Ábyrgð Rússa forgangsmál

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á fundinum að stuðningur og samstaða með Úkraínu hefði verið forgangsmál í formennskutíð Íslands í Evrópuráðinu og mikilvægt væri að niðurstaða leiðtogafundarins í Reykjavík væri að Rússar væru látnir sæta ábyrgð á árás sinni í Úkraínu með víðtækum hætti. Þar ætti Evrópuráðið að gegna ríku hlutverki.

Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sagði þetta sögulega ákvörðun. Þannig mætti styðja fórnarlömb ofbeldisaðgerða við skráningu þess sem þeir hefðu misst, en skráin væri einnig bráðnauðsynleg til þess að sækja skaðabætur síðar meir.

Mark Rutter, forsætisráðherra Hollands, var einnig viðstaddur, enda mun tjónaskrá Evrópuráðsins hafa aðsetur í Haag en útibú í Úkraínu. Þar verða þá einnig hæg heimatökin ef til stríðsglæparéttarhalda kemur fyrir Alþjóðadómstólnum.

Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, fagnaði tjónaskránni. „Við erum þakklátir Evrópuráðinu og öllum þátttökuríkjunum fyrir að hafa veitt slíkan stuðning æðstu stjórnvalda. Við bjóðum öðrum ríkjum frá öllum heimshornum að taka þátt í tjónaskránni til þess að láta í ljós stuðning sinn við mikilvægi ábyrgðar Rússa vegna stríðs þeirra gegn Úkraínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert