„Við elskum okkar skóla“

Kallað hefur verið til mótmæla fyrir utan Barna- og menntamálaráðuneytið …
Kallað hefur verið til mótmæla fyrir utan Barna- og menntamálaráðuneytið kl. 13 á morgun vegna fyrirhugaðrar sameiningar skólanna. Samsett mynd

Formenn nemendafélaga Menntaskólans við Sund og Kvennaskólans í Reykjavík lýsa þungum áhyggjum af fyrirhugaðri sameiningu framhaldsskólanna tveggja. Boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan Barna- og menntamálaráðuneytið á morgun kl. 13. Um 1.200 manns hafa þegar sagst annað hvort ætla að mæta eða hafa áhuga á því að mæta.

Í hópi þeirra sem hafa meldað sig á viðburðinn eru bæði núverandi og fyrrum nemendur beggja skóla. Einnig hefur verið gerður undirskriftarlisti þar sem rúmlega þúsund undirskriftum hefur verið safnað.

Nemendum brugðið

Embla María Möller Atladóttir, formaður Keðjunnar, og Oliver Einar Nordquist, ármaður Skólafélags Menntaskólans við Sund (SMS) harma það að téð umræða um sameiningu skólanna hafi farið fram án nokkurs samráðs við nemendur skólanna.

„Fyrstu fréttirnar komu okkur í opna skjöldu,“ segir Embla María í samtali við mbl.is er hún lýsir því þegar hún fyrst las fréttirnar um sameininguna. „Þetta var svo mikið sjokk fyrst. Ég náði ekki alveg að meðtaka þetta.“

Hún segir að þörf sé á því að svona stór ákvörðun sé tekin í samráði við nemendur. Embla segir nemendur Kvennaskólans almennt vera ósátta með sameininguna og hún segist ekki kannast við það að nokkur kennari sé sérlega ánægður með hana heldur.

Í MS voru viðbrögðin svipuð.

„Það er enginn sem er rosalega sáttur eða til í þetta,“ segir Oliver, ármaður SMS, í samtali við mbl.is, spurður um það hvernig nemendur tóku í fréttirnar. „Allir urðu rosalega stressaðir án þess að vita hvað væri í gangi.“

Væri erfitt að missa þriggja anna kerfi

„Nemendur velja MS til þess að vera í MS,“ segir Oliver. „Núna seinustu ár hefur umsækjendum fjölgað og félagslífið stækkað.“

Menntaskólinn við Sund er nú einn eftirsóttasti framhaldsskóli á landinu. Hann býður upp á þriggja anna kerfi sem er ekki í boði í Kvennaskólanum.

Þriggja anna námsár er aðeins í boði í tveimur skólum á landinu, MS og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Oliver segir að nemendur velji ekki bara MS út af félagslífinu heldur líka vegna þess að hann bjóði upp á þriggja anna kerfi, sem ekki er boðið upp á í Kvennaskólanum.

Oliver Einar Nordquist, ármaður Skólafélags Menntaskólans við Sund.
Oliver Einar Nordquist, ármaður Skólafélags Menntaskólans við Sund. Ljósmynd/Aðsend

Vilja ekki tapa „Kvennaskólaandanum“

„Fólk valdi Kvennó af ástæðu. Það vill halda sér í Kvennaskólanum eins og hann er í dag,“ segir Embla. „Ég hef fengið að heyra það í kringum mig að fólk sé hrætt við að missa þennan Kvennaskólaanda.“

„Þetta var náttúrulega fyrsti skólinn fyrir kvenmenn landinu, Ingibjörg H. Bjarnason fyrsta konan á Alþingi var skólastjóri, við erum enn með húsgögn Þóru Melsteð, stofnanda skólans, í byggingunni,“ segir hún.

„Við erum ekki einungis hrædd um að þessi sameining muni stroka Kvennaskólann út af blaðinu, heldur líka að við munum missa sögulegu byggingarnar sem við höfum.“

Embla María Möller Atladóttir, formaður Keðjunnar.
Embla María Möller Atladóttir, formaður Keðjunnar. Ljósmynd/Aðsend

Tímasetningin óhentug

Formennirnir hafa báðir áhyggjur af því að færri 10. bekkingar muni sækja um pláss í skólunum vegna fréttanna. Embla María telur að umsækjendur séu líklegri vegna þessa til þess að velja skóla sem er ekki „í hættu, eins og Kvennó og MS eru“.

Oliver segir að þar sem umsækjendur skólanna leitist gjarnan eftir ólíkum námsleiðum gæti umsóknum fækkað mjög mikið vegna fregnanna um fyrirhugaða sameiningu.

„Þetta er að koma á þessum tíma sem fólk er að sækja um framhaldskóla og það eru örugglega ekki margir sem setja MS í fyrsta val og Kvennó í annað eða öfugt,“ segir Oliver.

Vona að stjórnvöld hlusti

Þau vona bæði að stjórnvöld hlusti á nemendurna í skólunum sem er hugsanlega verið að sameina.

„Það sem við vonumst eftir er að þetta verði endurskoðað. Við erum með þessi mótmæli til að sýna að okkur er ekki sama. Við elskum okkar skóla,“ segir Oliver að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert