Athuguðu með torkennilegan hlut í höfninni

Maður var sendur í sjóinn út að hlutnum.
Maður var sendur í sjóinn út að hlutnum. Ljósmynd/Björgunarsveitin Sigurvon

Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði var í nótt beðin um að athuga með torkennilegan hlut í höfninni, að beiðni lögreglunnar.

Maður var sendur í sjóinn út að hlutnum, sem reyndist vera björgunarbátur af Þrist ÍS sem brann í Sandgerðishöfn um daginn.

Annað útkall

Skömmu áður hafði Sigurvon farið í annað útkall vegna báts sem var að losna frá bryggju í höfninni.

Svo vel vildi til að nokkrir félagar voru saman komnir í björgunarsveitarhúsi bæjarins á fundi og var hópur því kominn á bryggjuna aðeins þremur mínútum eftir að útkallið barst. Þá höfðu hafnarstarfsmenn þegar náð að bjarga málunum.

Við eftirlit á hafnarsvæðinu kom í ljós að björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein var farið að lemjast við bryggjuna og bætti björgunarsveitin við belgjum til að fyrirbyggja frekara tjón á skipinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert