Úrgangsgler verður byggingarefni framtíðarinnar

Sunna Ólafsdóttir Wallevik, stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion.
Sunna Ólafsdóttir Wallevik, stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion. mbl.is/Þorlákur

Úrgangsgler og steypumulningur verður endurnýtt við húsbyggingar, nái hugmyndir Sunnu Ólafsdóttur Wallevik, stofnanda og framkvæmdastjóra Gerosion, fram að ganga. Þetta var ein þeirra mörgu rannsókna sem hún kynnti á fundi Samáls í Hörpu í dag.

Sunna, sem jafnframt er með meistaragráðu í ólífrænni efnafræði, stendur að baki sprotafyrirtækisins Rockpore, sem er að þróa tækni þannig að gler- og steypuúrgangur verði nýttur sem fylliefni við byggingaframkvæmdir. Úrgangi er þannig skipt út fyrir möl, kemur þá að gagni og sparar urðun.  

Fjölbreytt nýsköpunarstarf

Sunna er sannarlega með mörg járn í eldinum og kemur að fleiri nýsköpunarfyrirtækjum. Helst þeirra er Gerosion, sem unnið hefur rannsóknarverkefni með Elkem á Grundartanga. Markmið verkefnisins er að nýta iðnaðarúrgang til að búa til köggla sem nýtast sem hráefni fyr­ir framleiðslu kísilmálms. Gangi þetta eftir er gríðarlegu magni úrgangsefna forðað frá urðun og kolefnisspor álframleiðslu minnkar til muna.

Framleiðslan er enn á nokkru frumstigi en Sunna býst við að hún geti tekið stökk á næstu árum og orðið að hugviti sem hægt verður að flytja út um allan heim.  

Gerosion er að upplagi þekkingarfyrirtæki og annast ráðgjöf í efnistækni og um tæringu, bæði fyrir jarðhitaiðnaðinn og orkufrekan iðnað. Að auki sinnir Gerosion rannsóknarverkefnum sem snúast um hringrásarvirkni hvers kyns úrgangs.

Sunna segist mjög bjartsýn á gott samstarf við iðnaðinn, að hann muni tileinka sér umhverfisvænar lausnir, þegar sýnt hefur verið fram á að þær séu gerlegar.  

Stundað rannsóknir frá 17 ára aldri

Sunna segist hafa fengist við rannsóknir frá unga aldri, hún sé fædd inn í steypufjölskyldu, og hafa byrjað að rannsaka steypu strax 17 ára gömul. Í framhaldinu fór hún í efnaverkfræði og tók meistaragráðu í ólífrænni efnafræði. Hún vann um tíma hjá Nýsköpunarmiðstöð og röð atvika í framhaldinu varð til þess að hún, ásamt fleirum, stofnaði nýsköpunarfyrirtækið Gerosion árið 2014. 

Gangi hugmyndir Sunnu eftir væri búið að leysa örlög gler- og steypuúrgangs á Íslandi og færa kirfilega inn í hringrásarhagkerfið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert