Verðbólgan færist hægt niður

Verðbólgan hefur lækkað aðeins, en mat- og drykkjarvara hækkaði um …
Verðbólgan hefur lækkað aðeins, en mat- og drykkjarvara hækkaði um 0,39% milli mánaða. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 9,5% og lækkar frá fyrra mánuði þegar verðbólgan mældist 9,9%. Hefur verðbólgan verið yfir 9,5% síðan í desember. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar, en í dag birti stofnunin vísitölu neysluverðs fyrir maí.

Vísitala neysluverðs stendur nú í 590,6 stigum og hækkar um 0,39% frá fyrri mánuði. Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% milli mánaða sem hafði 0,12% áhrif á vísitöluna. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði þá um 1,3% milli mánaða sem hafði 0,25% áhrif á vísitöluna. Á móti lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 7% og hafði það áhrif til lækkunar vísitölu upp á 0,15%.

Tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist nú 8,4%.


Tólf mánaða verðbólgan lækkar þar sem mánaðarbreytingin núna mælist sem fyrr segir 0,39%, en í sama mánuði í fyrra var mánaðarbreytingin 0,77%. Næstu tveir mánuðir voru nokkuð stórir þegar kom að hækkun í fyrra, en í júní mældist mánaðarbreytingin 1,41% og í júlí 1,17%.

Það á því eftir að koma í ljós hvort að verðbólgan muni halda áfram að hjaðna næstu mánuði, en fyrr á árinu hafði verið gert ráð fyrir að verðbólgan myndi lækka nokkuð skarpt fyrir haustið. Á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í vikunni kom hins vegar í ljós að spá bankans er orðin nokkuð svartsýnni og gerir bankinn nú ráð fyrir því að verðbólgan verði áfram yfir 8% út árið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina