Pönnukökustopp í Vík!

Anna Karolina Niedzwiedz og Michel Stanslaw Ladaczek una hag sínum …
Anna Karolina Niedzwiedz og Michel Stanslaw Ladaczek una hag sínum vel í Vík í Mýrdal þar sem þau hafa nú opnað vagn með crepes, eða fylltum pönnukökum. Dæturnar heita Gaia og Inka. mbl.is/Ásdís

Í Vík í Mýrdal ríkir mikið og gott fjölmenningarsamfélag sem byggist mikið til upp á ferðamennsku. Hjónin ​Anna og Michel frá Póllandi hafa búið þar í mörg ár en þau kynntust einmitt í Vík. Hjónin hittu blaðamann einn sunnudag fyrir skömmu og eftir gott spjall um lífið og tilveruna og nýja matarvagninn fékk hann að smakka á góðgætinu. Pönnukakan með súkkulaði og rjóma rann ljúflega niður!

Ekki ást við fyrstu sýn

Anna var fyrsta manneskjan sem Michel hitti á Íslandi.

„Við kynntumst hér í Höfðabrekku fyrir fimm árum. Ég kom hingað fyrst árið 2015 til að vinna yfir veturinn þar á hótelinu. Ég var svo að koma og fara í nokkur ár,“ segir Anna og segist hafa ákveðið að koma til Íslands upphaflega því hana vantaði tilbreytingu í lífið.

„Svo fyrir um sex árum kynnt­umst við Michel, en ég fór svo til Póllands að læra eftir að ég kynntist honum og þá vorum við í fjarbúð um tíma. En ég kom eiginlega aftur til Íslands vegna hans,“ segir Anna.

Michel átti lítið fasteignafélag í Póllandi áður en hann kom hingað en fannst of mikið stress í lífi sínu. Ein vinkona hans sagði honum hversu friðsælt og fallegt væri á Íslandi og fannst honum frásögnin heillandi. Hann segist þó ekki hafa hugsað mikið meira um það, en um tveimur mánuðum síðar hringdi vinkonan og tilkynnti honum að hann ætti að mæta á vakt á hóteli í Vík í vikunni á eftir. Michel dreif sig til Íslands eftir nokkra umhugsun. 

„Ég var keyrður til Víkur frá Keflavík og kom beint á hótelið klukkan eitt um nóttina. Anna þurfti að taka á móti mér og var ekkert sérlega glöð að þurfa að vaka eftir þessum nýja starfsmanni. Hún beið eftir mér í þrjá tíma, en núna veit hún að hún hafði í raun verið að bíða eftir mér alla ævi,“ segir Michel og hlær.

Var það ást við fyrstu sýn?

„Nei!“ svara þau bæði í kór og brosa.

„Við vorum farin að deita eftir nokkra mánuði,“ segir hann, en síðan þetta örlagaríka kvöld hafa tvær litlar dætur bæst í fjölskylduna, þær Inka og Gaia.

Inka litla leikur sér á pallinum fyrir utan matarvagn foreldra …
Inka litla leikur sér á pallinum fyrir utan matarvagn foreldra sinna. mbl.is/Ásdís

Erum að opna matarvagn

Hjónin hafa unnið ýmis störf í Vík en í dag er Michel sundlaugarvörður bæjarins og Anna hefur verið að vinna í Súpufélaginu en er nú í fæðingarorlofi. Þau una hag sínum vel í Vík og kunna vel við samfélagið.

„Nú erum við að opna matarvagn! Michel keypti vagninn síðasta sumar því hann sá hann auglýstan og sló til,“ segir hún og segist hafa frétt af því eftir að hann keypti hann.

Crepes með nutella og rjóma klikkar ekki.
Crepes með nutella og rjóma klikkar ekki.

„Við ákváðum svo að hafa „crepes“,“ segir Michel, en það eru eins konar pönnukökur sem oft eru fylltar.

„Við verðum með pönnukökur með Nutella, Prins Póló og rjóma, aðra með skinku og osti og þriðju með pestó, mozzarella, spínati og ólífum.“ 

Að búa til mat er ástríða

Hjónin ætla sjálf að vinna í vagninum í sumar, ásamt móður Önnu og einnig verða tvær starfsstúlkur til taks ef á þarf að halda.

„Við vitum ekki alveg við hverju við eigum að búast,“ segir Anna en nefnir að það hafi myndast biðröð í vagninn daginn sem þau prufukeyrðu hann.

Hjónin vonast eftir að fólk kunni vel að meta þessa …
Hjónin vonast eftir að fólk kunni vel að meta þessa viðbót í matarflóruna við þjóðveginn.

„Það er allt að verða klárt en við eigum eftir að fínpússa aðeins útlitið, en það verður allt tilbúið í júní og við ætlum að hafa opið eins lengi yfir daginn og fram á kvöld eins og við getum,“ segir Michel og segir pönnukökurnar á hringveginum góða tilbreytingu frá pulsunni.

„Við erum búin að æfa okkur mikið og það tekur aðeins þrjár til fjórar mínútur að búa til „crepes“.

Ítarlega viðtal er í Sunnudagsblaðinu við Önnu og Michel. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: