Almenningur ákveði laun þingmanna

Björn Leví Gunnarsson lagði fram þingsályktunartillögu um laun kjörinna fulltrúa …
Björn Leví Gunnarsson lagði fram þingsályktunartillögu um laun kjörinna fulltrúa fyrr á árinu. Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að í stað núgildandi laga um laun kjörinna fulltrúa ætti heldur að taka mið af því hvað meirihluta þjóðfélagsins þyki eðlilegt. Þá segir hann þingsályktunartillögu Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, sem felur í sér frystingu launahækkananna vera frestun á vandamálinu frekar en lausn.

Lögðu fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt

Í mars flutti Björn Leví þingsályktunartillögu um sáttmála um laun kjörinna fulltrúa, starfsstétta grunninnviða og lágmarksframfærslu. Tillagan, sem hefur það markmið að stuðla að þjóðarsátt, kveður á um aukna aðkomu almennings að launum kjörinna fulltrúa. Hún hefur ekki náð fram að ganga á þingi. 

„Við viljum að það sé uppi á borðunum hvað fólk telur vera sanngjarnt í laun fyrir að sinna þeirri almannaþjónustu sem þingstörf og ráðherrastörf eru. Við erum að vinna fyrir fólk og fólk ætti að ákveða hvaða laun við fáum fyrir þá þjónustu. Við eigum alls ekki ákveða það fyrir okkur sjálf, við erum ekki dómbær á það,“ segir Björn Leví í samtali við mbl.is. 

Hann telur leiðina að sáttum fela í sér að byrja á þeim stað þar sem flestir séu sáttir, en sjálfur hefur hann framkvæmt nokkrar óformlegar kannanir í þeim tilgangi að kynna sér hvaða skoðun fólk hefur á launum kjörinna fulltrúa. Í þeim vilji flestir hafa launin nokkuð lægri, en færri vilji sjá þau mun lægri eða mun hærri. Þá segir hann meðaltal þeirra kannana sem hann hafi framkvæmt endurspegla viðbrögð fólks við úrskurði kjararáðs árið 2016.

Tillaga Ingu breyti ekki miklu 

Forsvarsmenn bæði Flokks fólksins og Pírata hafa gagnrýnt tilvonandi launahækkun kjörinna fulltrúa, en þó flokkarnir tveir ekki samhljóða um næstu skref. Í dag var þingsályktunartillaga Ingu Sæland um um frestun launahækkana æðstu ráðamanna þjóðarinnar lögð fyrir þingið, en tillagan felur í sér frestun á fyrirhuguðum launahækkunum æðstu ráðamanna. Björn Leví segir frestun ekki taka á hinu raunverulega vandamáli. 

„Hækkunin mun gerast þegar frystingunni lýkur og það breytir ekki neinu um grunnupphæðina,“ segir Björn Leví, sem telur frekar vera þörf á annars konar aðgerðum til að hægt sé að ná sáttum í þessu máli. 

Krónutöluhækkun og hámarkshækkun þarfnast skoðunar

„Vandamálið er þessi undirliggjandi grunnur og sú staðreynd að þessi lög sem fjalla um hækkunina taka hvorki tillit til krónutöluhækkuninnar né þeirra skilyrða sem er verið að reyna að setja í mörgum samningum um hámarkshækkun. Þannig eru lögin gölluð,“ segir Björn Leví, sem segir sjálfsagt að sambærilegar kröfur gildi fyrir ráðamenn þjóðarinnar og fólk á almennum vinnumarkaði þegar kemur að launahækkunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina