Toppuðu Hvannadalshnjúk og Hrútfjallstinda

Rúmlega tíu manna hópur gekk á Hrútfjallstinda.
Rúmlega tíu manna hópur gekk á Hrútfjallstinda. Ljósmynd/FÍ

Árleg ferð á Hvannadalshnjúk hjá Ferðafélagi Íslands var farin í nótt og toppnum náð nú í morgun. Rúmlega fjörutíu manns gengu þennan hæsta tind Íslands, en á sama tíma gekk rúmlega tíu manna hópur á Hrútfjallstinda í Öræfajökli.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ, segir aðstæður á leiðinni hafa verið góðar hjá báðum hópum.

Rúmlega fjörutíu manna hópur gekk á Hvannadalshnjúk.
Rúmlega fjörutíu manna hópur gekk á Hvannadalshnjúk. Ljósmynd/FÍ

„Færið var gott í morgun og svo varð mýkra eftir því sem sólin hækkaði og leið á daginn. Þetta er ákaflega fallegur dagur í Skaftafelli og Öræfajökull skartar sínu fegursta,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Hin árlega ferð á Hvannadalshnjúk er yfirleitt farin um Hvítasunnuhelgina en henni var frestað vegna veðurs. Hópurinn lagði af stað klukkan þrjú í nótt og hefur ferðin gengið vel að sögn Páls.

Frá Hrútfjallstindum í morgun.
Frá Hrútfjallstindum í morgun. Ljósmynd/FÍ

Tólf til fjórtán tíma ganga

„Það er lögð áhersla á það í þessum ferðum að ganga hægt og rólega. Það er orðin þekkt aðferð sem skilar fólki á tindinn með sem minnstri áreynslu og mestri upplifun.“

Gangan á tindinn er löng og tekur alls um tólf til fjórtán klukkustundir. Ferðin á Hrútfjallstinda er styttri.

„Öræfajökull skartar sínu fegursta,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ.
„Öræfajökull skartar sínu fegursta,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ. Ljósmynd/FÍ

„Gengið var snemma til að ganga í eins góðu færi og hægt er. Veður hefur verið hið besta og útsýnið mikið. Færið var gott á leiðinni upp hjá báðum hópum.“

mbl.is