Ung hryssa synti út í Lundey

Hryssan komin að landi eftir sundið til baka úr Lundey.
Hryssan komin að landi eftir sundið til baka úr Lundey. Ljósmynd/Páll Stefánsson

Hryssa í hestalátum sem talin er hafa reynt að synda yfir Héraðsvötn, úr Hegranesi yfir í Viðvíkursveit, þar sem hún taldi von til að hitta stóðhest, hraktist af leið.

Straumurinn virðist hafa borið hana út í sjó og hún náði að synda upp í Lundey sem er skammt frá landi. Eigendur eyjarinnar, bændurnir á Bakka, eru með æðarvarp í Lundey. Þeir sáu einhverja hreyfingu í eyjunni og sigldu þangað út til að kanna málið. Á móti þeim tók mannvön hryssa.

Hryssan á sundi í sjónum.
Hryssan á sundi í sjónum. Ljósmynd/Páll Stefánsson

Hún hafði verið í stóði í Garði í Hegranesi og kannaðist bóndinn strax við gripinn þegar hann fékk senda ljósmynd. Til stóð að sækja bóndann og múl til að hægt væri að teyma hryssuna niður í fjöru og athuga hvort hún vildi ekki synda upp á Garðssand. Þegar báturinn var farinn af stað fór hryssan aftur á sund og tók nú stefnuna að Hegranesvita sem er langt frá heimkynnum hennar. Mönnunum tókst að sigla fyrir hana og beina henni að sandinum.

Hún hristi sig í fjörunni og skokkaði heim í Garð og varð ekki meint af þessari svaðilför.

Nánar verður fjallað um þetta í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert