Ný lög þrengja að Airbnb og auka eftirlit

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra
Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon

Að afloknum ríkisstjórnarfundi í dag sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, að hún og innviðaráðherra væru að leggja drög að hertri löggjöf um heimagistingu. Með nýju löggjöfinni verði eftirlit með heimagistingu aukið og þrengt að starfseminni. Þetta er ein þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin tilkynnti í gær til þess að ná tökum á verðbólgunni.

Húsnæðisverð helsta rót vandans

Lilja segir að húsnæðisverð sé einn helsti orsakavaldur verðbólgunnar. Íbúðaverð hafi hækkað um 25,5% á árgrundvelli í fyrra. Slík hækkun sé ekki sjálfbær og bregðast þurfi við henni á framboðshliðinni. Lilja vísar til fordæma erlendis frá þar sem skortur á leiguhúsnæði hefur leitt til hertari reglna um heimagistingu. Eins segir hún að með nýju lögunum verði jafnræðis gætt milli þeirra sem stunda heimagistingu og þeirra sem lagt hafa í miklar fjárfestingar vegna gistihúsa- og hótelreksturs.

Ráðherra segir að fólk eigi ekki að óttast neina kollsteypu í þessum málum heldur að lögunum sé ætlað að leita jafnvægis. Hún játar það að heimagisting hafi getað sinnt þeim kúfi sem nú er í ferðaþjónustu, og að löggjöfin komi heldur ekki til framkvæmda á þessu mikla ferðamannasumri.

Gjaldtaka fyrirhuguð

Lilja Dögg ræddi enn fremur um þær væntingar sem hún hefur um vinnu þeirra sjö starfshópa sem ráðuneytið skipaði fyrr í mánuðinum. Markmið þeirra er að auka verðmæti í ferðaþjónustu, að lengja þann tíma sem ferðamenn dvelja á landinu, að þeir fari sem víðast um landið, og að neysla þeirra innanlands skili meiru til samfélagsins. Einn starfshópur hefur álagsstýringu sérstaklega til skoðunar, og skoðar í samstarfi við umhverfisráðherra gjaldtöku á vinsælum ferðamannastöðum.

mbl.is