Ný salerni á friðlýstum svæðum

Jökulsárlón er friðlýst og tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði.
Jökulsárlón er friðlýst og tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ýmsar áskoranir eru til staðar á friðlýstum svæðum en nú undirbúa stjórnvöld útboð á rekstri og umsjón salerna á völdum svæðum af því tagi. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í lok síðustu viku.

Hyggst ráðuneytið gera þarfagreiningu þar sem meðal annars verður kannað hvar salernisaðstöðu er helst ábótavant. Það verður ekki fyrr en að greiningu lokinni sem sem rekstur og umsjón salernanna á völdum svæðum verður boðinn út.

Hefur ráðuneytið þá einnig hug á að móta stefnu sem gildir sérstaklega um yfirbragð innviða og verklag friðlýstra svæða. Slík stefna eða viðmið hefur ekki verið til og stendur til að vinna hana í samráði við menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Einnig stendur til að samræma gesta- og svæðisgjöld þjóðgarða, en í dag eru slík gjöld tekin í þjóðgarðinum á Þingvöllum og í Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði, en ekki á friðlýstum svæðum sem eru í umsjón Umhverfisstofnunar. Til stendur því að hefja gjaldtöku á völdum svæðum í umsjón Umhverfisstofnunar og munu hagaðilar fá upplýsingar um það á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert