Biðlar til fólks að halda sig frá rostungnum

Rostungur hefur komið sér fyrir á Álftanesi.
Rostungur hefur komið sér fyrir á Álftanesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rostungur hefur komið sér notalega fyrir og liggur nú í fjörunni á Álftanesi. Rostungurinn hefur verið í fjörunni í nokkrar klukkustundir í makindum sínum en fólk er beðið um að koma ekki á svæðið og alls ekki fara nær rostungnum en hundrað metra.

Þóra Jónasdóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, segir í samtali við mbl.is að mjög mikilvægt sé að fólk haldi sig frá rostungnum þar sem þeir geta verið hættulegir fólki. Þá segir hún einnig heilsu dýrsins vera í fyrirrúmi og ítrekar mikilvægi þess að trufla ekki dýrið. 

Geta farið hratt yfir 

„Það má miðla til fólks að vera ekki að koma og vera ekki að fara að rostungnum. Það stressar villt dýr og hann þarf mögulega hvíld og tíma til að jafna sig eftir ferðalag. Hans vegna er best ef fólk kemur ekki.“

Hún segir að þótt að rostungar virðast eins og þung hægfara dýr geti þeir farið mjög hratt yfir ef þeim líður eins og þeim sé ógnað. 

„Þeir geta þá notað höggtennurnar til að verja sig. Til viðbótar geta dýr borið með sér smitsjúkdóma sem geta smitað okkur.“

Lögregla á leið á svæðið

Hún segir það sama gilda um dróna og tekur fram að starfsmenn Matvælastofnunar hafi leitað til lögreglu um að koma á svæðið til að tryggja að fólk haldi sig frá rostungnum. Von er á að lögreglu á svæðið hvað úr hverju.

„Dýralæknir hjá Matvælastofnun og starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar eru búnir að meta ástandið og þau sár sem eru og meta sem svo að dýrið er í þokkalega góðu ástandi. Við fylgjumst áfram með en ef villt dýr er í neyð, veikt eða slasað þá er ber viðkomandi sveitarfélagi að sjá til þess að koma dýrinu til hjálpar eða aflífa það ef þess er þörf.“

Rostungurinn sefur værum svefni.
Rostungurinn sefur værum svefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert