Sýknuð af því að beita umsáturseinelti

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Sigurður Bogi

Héraðsdómur Norðurlands eystra sýknaði fyrrverandi eiginkonu Páls Steingrímssonar, starfsmann Samherja, þann 16. maí. Hún hafði þá verið sökuð um að hafa beitt Örnu McClure, lögfræðing Samherja, umsáturseinelti. 

Heimildin greindi fyrst frá en dómur héraðsdóms var birtur í dag þótt að dæmt hafi verið í málinu fyrir 23 dögum síðan. Samkvæmt 2. gr. reglna Dómstólasýslunnar ber að birta dómsúrlausnir innan þriggja virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar.

Dómarinn gaf lítið fyrir málatilbúnað ákæru lögreglustjórans á Akureyri í málinu. Að mati dómsins var fátt sannað í málinu og háttsemi ákærðu heimfærð undir rangt ákvæði í hegningarlögum. Jafnframt gagnrýndi dómari ransókn lögreglu sem var ekki nægilega góð. Var ríkissjóði því gert að greiða allan sakarkostnað sem nam samtals um einni og hálfri milljón.

Sökuð um að senda skilaboð að nóttu til

Samkvæmt málsatvikalýsingu dómsins átti umsáturseineltið að hafa staðið yfir frá 11. maí til 12. ágúst árið 2021. Ákært var fyrir endurtekin brot á friðhelgi með því að hafa endurtekið fylgst með, setið um og sett sig í samband við Örnu. Ákæruvaldið hélt því fram að háttsemin hafi verið til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða hjá henni. 

Á því tímabili var þeirri ákærðu gefið að sök að hafa meðal annars sent Örnu skilaboð að nóttu til, að hafa komið að heimili Örnu síðla kvöld og hringt dyrasíma, sakað Örnu um framhjáhald og sett útprentanir af fjölmiðlaumfjöllun um samskipti Örnu í póstkassa aldraðrar móður yfirmanns Örnu.

Ómögulegt að heimfæra undir ákvæðið

Í niðurstöðu dómara kemur fram að meint brot ákærðu væru annað hvort ósönnuð eða ekki nægilega alvarleg eða að aðstæður hefðu verið þannig að ómögulegt væri að heimfæra þau undir ákvæði hegningarlaga um umsáturseinelti. 

„Að mati dómsins fer því hins vegar fjarri að háttsemi ákærðu verði heimfærð undir ógnandi háttsemi í skilningi ákvæðisins, hvort sem litið er til einstakra tilvika eða háttseminnar í heild sinni,“ segir í dómnum.

Þá áréttaði dómurinn að ekki nægði til að háttsemin væri óvenjuleg eða óþægileg, heldur þyrfti hún að valda brotaþola hræðslu eða kvíða. Þá var tekið fram að sum mikilvæg vitni hefðu ekki verið kölluð fyrir dóminn.

„Þessir aðilar voru heldur ekki kvaddir fyrir dóminn til skýrslugjafar. Er rannsókn lögreglu hér áfátt.“

Á því byggðu var sú ákærða sýknuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert