Hjúkrunarfræðingurinn sýknaður

Steina Árnadóttir var sýknuð af ákæru um manndráp í Héraðsdómi …
Steina Árnadóttir var sýknuð af ákæru um manndráp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjúkrunarfræðingurinn sem ákærður var fyrir manndráp á sjúklingi á geðdeild Landspítalans hefur verið sýknaður. Dómur í málinu var kveðinn upp nú fyrir skemmstu í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ákæruvaldið gaf út ákæru á hendur Steinu Árnadóttur hjúkrunarfræðingi fyrir manndráp og brot í opinberu starfi. Var henni gefið að sök að hafa banað sjúklingi á geðdeild Landspítalans, konu á sextugsaldri, með því að þvinga ofan í hana næringardrykk. Drykkurinn hafi farið í loftveg konunnar með þeim afleiðingum að hún kafnaði. Atvikið átti sér stað 16. ágúst árið 2021.

Við aðalmeðferð málsins nú í lok maí kom fram að ákæruvaldið hygðist ekki fara fram á tiltekna refsingu heldur legði það í mat dómsins hver refsing Steinu skyldi vera. Vísaði saksóknari í málinu, Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, til eldri dómsmála þar sem sakborningar hlutu 14 ára og 16 ára dóma. 

Lögmaður móður hinnar látnu fór fram á að hinni ákærðu yrði gert að greiða 14,5 milljónir í miskabætur auk þess sem henni yrði gert að greiða útfararkostnað og málskostnað til dánarbúsins. 

Verjandi Steinu ræðir við aðstandendur Steinu fyrir dómsuppkvaðninguna.
Verjandi Steinu ræðir við aðstandendur Steinu fyrir dómsuppkvaðninguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert