„Það er uppselt í Reykjanesbæ“

Samkvæmt erindi Bus4U er strætó reglulega troðfullur.
Samkvæmt erindi Bus4U er strætó reglulega troðfullur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er bara enn ein birtingarmynd þess að það er uppselt í Reykjanesbæ. Innviðirnir eru sprungnir og bærinn er kominn langt yfir þolmörk hvað varðar fjöldann.“ Þetta segir Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, um erindi Bus4U sem var stílað á bæjarráð Reykjanesbæjar áttunda maí sl.

Í erindinu var m.a. sagt að fólk væri áreitt í almenningssamgöngum bæjarins og bílstjórar væru að segja upp vegna ágengni og frekju flóttamanna. Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðar, segir misjafna upplifun vera meðal íbúa um það hvort álagið sé orðið of mikið.

Margrét segir umsækjendur um alþjóðlega vernd vera of marga í Reykjanesbæ og að meirihluti bæjarstjórnar hafi ekki tekið á málinu af nægri festu.

„Meirihlutinn í Reykjanesbæ hefur ekki stigið nógu fast niður til jarðar. Þú sérð að Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði mótmælti framferði Vinnumálastofnunar síðasta haust, þau þá með 500 manns en við 1.000 og höfnuðu frekari móttöku. Það virkaði.“

Misjafnar skoðanir meðal íbúa

Valgerður tekur undir að rúturnar séu fullar en að fólkið þurfi að nota þær til þess að nýta þau fáu virkniúrræði sem eru til staðar.

„Strætóarnir eru troðfullir sem er auðvitað ekki gott fyrir neinn. Umsækjendur um alþjóðlega vernd nota þá hins vegar til að komast í félagslega virkni eins og til dæmis til Rauða krossins að læra íslensku,“ segir Valgerður en hún telur mismunandi skoðanir vera meðal íbúa um hvort bærinn sé kominn að þolmörkum í fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd.

„Mér finnst mjög misjöfn upplifun bæjarbúa af því hvort það sé einhver truflun af því. Það eru einhverjar sögur af áreitni, sem ég dreg alls ekki í efa, en við verðum að passa okkur á því að dæma ekki allan hópinn af því,“ segir Valgerður.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert