Almannavarnateymi Grindavíkur fundar

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir bæjaryfirvöld fylgjast vel með stöðunni.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir bæjaryfirvöld fylgjast vel með stöðunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir menn hafa fundið mjög greinilega fyrir skjálftanum um hálf átta leytið í morgun, sem mældist upp á 4,3. Eins voru fleiri skjálftar í nótt sem menn sváfu mis vel af sér, „enda menn ýmsu vanir í Grindavík“.

Fannar segist ekki hafa fengið fregnir af skemmdum í bænum eða af því að hlutir hafi færst úr stað. Hann segir almannavarnateymi bæjarins ætla að koma saman í hádeginu til að ræða næstu viðbrögð. Eins munu bæjaryfirvöld fylgjast vel með hvað kemur af fundi vísindamanna sem hefst klukkan níu.

Komi til eldsumbrota þá sé það lán í óláni að slíkt gerist á besta tíma ársins. Komi til eldsumbrota á Fagradalssvæðinu þá sé það líka þekkt og fjarri mannabyggðum.

Fannar segir bæjaryfirvöld hafa undanfarið farið yfir mismunandi sviðsmyndir um áhrif mögulegra eldsumbrota á innviði. Þá sé einkum verið að skoða áhrif á veitu- og vegakerfi. Mikill og góður undirbúningur liggi því fyrir til að bregðast við ólíkum aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert