„Ekki í fullri vinnu bara að gamni sínu“

Margrét Tryggvadóttir er gagnrýnin á nýja skipan leikskólamála í Kópavogi.
Margrét Tryggvadóttir er gagnrýnin á nýja skipan leikskólamála í Kópavogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breytt fyrirkomulag leikskólaþjónustu í Kópavogi hefur komið af stað umræðum víða og Margrét Tryggvadóttir er ein þeirra sem tekið hefur til máls.

Margrét kveðst efins um þann sveigjanleika sem nýtt kerfi á að bjóða upp á, en hún situr í lista- og menningarráði Kópavogs fyrir hönd Samfylkingarinnar.

„Flestir eru ekki í fullri vinnu bara að gamni sínu. Flestir eru þar af því þeir þurfa að vinna fyrir sér og fjölskyldu sinni. Mér skilst það að um 85% séu að nýta fulla dagvistun í Kópavogi. Það fólk getur ekki minnkað við sig vinnu,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Konur þurfi að grípa boltann

Kjósi fjölskyldur að minnka viðveru barna í leikskólum til að spara fé endar það iðulega með því að konur grípi boltann.

„Ef við erum að horfa á raunveruleikann þá er það ennþá svo að karlar eru almennt með hærri laun en konur. Þegar reikningsdæmið er lagt upp heima hjá fólki, þá er ég hrædd um að það verði konan í gagnkynja samböndum sem minnkar við sig vinnu.“

Margrét rifjar upp að það hafi verið mikið jafnréttismál síðustu áratuga að tryggja dagvistun barna og þar með atvinnuþátttöku kvenna. „Fólk sem hefur reynt það að vinna heima með tveggja til fjögurra ára börn hefur sannreynt það að því verður ekki mikið úr verki.“

Fari svo að konur minnki þannig atvinnuþátttöku sína, hefur það keðjuverkandi áhrif út lífið. Þær hafi minni tækifæri til framgangs í starfi og fái svo minni lífeyrisgreiðslur við starfslok.

Millitekjufólk beri kostnaðinn

Margrét telur millitekjufólk á Íslandi berjast í bökkum og hafa lítið svigrúm til gjaldskrárhækkana. Þetta sé sá hópur sem hafi lítið svigrúm til að hætta vinnu á hádegi eða klukkan tvö til að geta farið að sinna börnum.

Margrét hefur aðeins séð tillögur en engar samþykktar breytingar enn og getur því aðeins spáð í afleiðingarnar. Miðað við það sem hún hefur séð „væri hægt að sjá fyrir sér að hópur foreldra um 40% leikskólabarna sé að bera meginkostnaðinn. Hvar er jafnræðið í því? Gæti farið svo að foreldrar í þeim hópi þurfi að greiða mjög ríflega fyrir vistun barna sinna?“

Aðrar lausnir ekki skoðaðar

Margrét segist ekki efa að grípa hafi þurft til einhverra aðgerða. Hún bendir á að í mörgum sveitarfélögum í Svíþjóð sé það fyrirkomulag, að ef annað foreldrið er í fæðingarorlofi og á annað barn á leikskóla, þá er það barn bara fjóra tíma á leikskóla.

„Mér finnst sérkennilegt að engar slíkar lausnir hafi verið lagðar fram. Þar er sannarlega einhver sveigjanleiki fyrir hendi. Það er vitað að margir foreldrar halda átta tíma vistun í fæðingarorlofi, en nýta þann tíma aðeins að hluta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert