Fá að taka þátt í aðlögun óháð leikskóla

Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgastjóra um breytingu á tilraunaverkefni …
Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgastjóra um breytingu á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um dvöl barna í aðlögunarverkefni í þremur grunnskólum. Samsett mynd

Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgastjóra um breytingu á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um dvöl barna í þremur grunnskólum. Áður fengu aðeins börn úr hverfisleikskólum að taka þátt, en foreldrar stúlku sem hefur skólagöngu í Rimaskóla í haust, mótmæltu því að börnum úr leikskólum utan hverfisins hefði verið synjað um þátttöku. 

Móðir stúlkunnar, Berg­lind Her­manns­dótt­ir greindi frá raunum sínum í viðtali við mbl.is í síðustu viku og sagði fátt um svör frá borginni. Kvaðst hún óttast að dóttir hennar myndi standa höllum fæti við upphaf skólagöngu, þar sem hún hefði ekki fengið að taka þátt í aðlögun eins og skólafélagar hennar.

Eftir umfjöllun fjölmiðla á málinu tjáði Berglind blaðamanni mbl.is að hjólin væru byrjuð að snúast og kvaðst hafa fengið frekari viðbrögð frá borginni, meðal annars þess efnis að málið yrði tekið fyrir á borgarráðsfundi. 

Fá boð óháð leikskóla 

Samkvæmt tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar var tillaga borgarstjóra á þá leið að öll börn sem hefja nám í 1. bekk í Rimaskóla, Breiðholtsskóla og Norðlingaskóla, óháð leikskóla, fái boð um að taka þátt í tilraunaverkefninu. Áður var verkefnið takmarkað við ákveðna leikskóla, en tekur nú mið af þeim grunnskólunum sem taka þátt í verkefninu.

„Tilraunaverkefnið felur í sér að börnum sem eru að ljúka leikskólagöngu er boðið að snúa ekki aftur í sinn leikskóla eftir sumarfrí heldur taka þátt í starfi frístundaheimilis fram að setningu grunnskóla.“ 

„Þessi breyting rúmast innan upphafslegs fjárhagsramma og mönnunar verkefnisins,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert