Koma upplýsingunum áfram til MAST

Dýraverndunarsamband Íslands hefur farið fram á tafarlausa stöðvun blóðtöku úr …
Dýraverndunarsamband Íslands hefur farið fram á tafarlausa stöðvun blóðtöku úr fylfullum hryssu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dýraverndunarsamband Íslands (DÍS) mun koma upplýsingum um dauðsföll mera í tengslum við blóðtöku á vegum Ísteka ehf. á framfæri við Matvælastofnun (MAST). Þetta segir Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS í samtali við mbl.is.

Segir hún sambandið hafa móttekið beiðni MAST um að fá aðgang að upplýsingunum og muni verða við henni fljótlega. „Síðan er það Matvælastofnunnar að rannsaka málið frekar.

Mun fleiri hryssur hafi drepist

DÍS sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem sambandið fer fram á tafarlausa stöðvun blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Er yfirlýsingin send í tilefni upplýsinga frá MAST um að átta fylfullar hryssur hafi drepist í tengslum við blóðtöku í fyrrasumar. Ástæða þessa sé talin vera reynsluleysi þeirra erlendu dýralækna sem framkvæmdu blóðtökuna á vegum fyrirtækisins Ísteka ehf.

Segir í yfirlýsingu DÍS að þeim hafi borist „áreiðanlegar upplýsingar“ um að mun fleiri hryssur hafi drepist í tengslum við blóðtökuna í fyrra.

Í kjölfar yfirlýsingar DÍS kallaði Matvælastofnun eftir aðgangi að gögnunum. Hyggst stofnunin rannsaka málið nánar þegar þeim hafa borist upplýsingarnar og bregðast við í samræmi við þær. RÚV greindi frá.

Upplýsingarnar áreiðanlegar

Linda ítrekar í samtali við mbl.is að upplýsingarnar sem DÍS hafi undir höndum séu áreiðanlegar. Hún geti þó ekki tjáð sig um það hvaðan þær hafi borist. 

Upplýsingarnar sem koma fram í yfirlýsingu DÍS eru meðal annars þær að í fyrrasumar hafi drepist á að minnsta kosti tíu bæjum ein hryssa eða fleiri í tengslum við blóðtöku. Þá hafi fjórar hryssur drepist á einum af þessum tíu bæjum.

Einnig hafi DÍS fengið ábendingu um að hryssa hafi óvart verið stungin í gegnum barka af óreyndum dýralækni. Hafi hún verið látin liggja á meðan henni blæddi út.

Óviðunandi

„Þetta er mjög alvarlegt mál sem yfirvöld þurfa að skoða til hlítar. Það er óviðunandi að óvanir dýralæknar séu við blóðtökur á fylfullum hryssum sem flestar eru ekkert eða lítið tamdar. 

Það þarf að rannsaka öll þau tilvik þar sem hryssa drapst í tengslum við blóðtöku í fyrrasumar og viðbrögð við þeim verða að vera í samræmi við lög,“ segir Linda Karen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert