„Skallablettur“ á ruslamálunum

„Fólk sem var áður með pappírs- og plasttunnu heima hjá …
„Fólk sem var áður með pappírs- og plasttunnu heima hjá sér frá einkaaðila missti tunnurnar áður en sveitarfélögin gátu komið með sínar tunnur. Þannig að það varð svona skallablettur þarna á milli,“ segir Gunnar Dofri Ólfasson, samskiptasjóri Sorpu. Samsett mynd

Samskiptastjóri Sorpu telur aukið álag á grenndargámastöðvar í Reykjavík hafa skapast vegna þess að innleiðingu nýrra ruslatunna sé enn ekki lokið. Vegna innleiðingarinnar hafi einkaaðilar fjarlægt sínar endurvinnslutunnur frá heimilum borgarinnar en mörg heimili hafa enn ekki fengið nýja endurvinnslutunnu í staðinn.

„[Einkaaðilarnir] buðu fólki upp á að hafa endurvinnslutunnur heima hjá sér, sem sveitarfélögin eru núna að koma með sínar tunnur í staðinn. Þá tóku þessi fyrirtæki sínar tunnu. Sú framkvæmd hefur ekki farið saman við innleiðingu á nýjum tunnum. Þannig að fólk sem var áður með pappírs- og plasttunnu heima hjá sér frá einkaaðila missti tunnurnar áður en sveitarfélögin gátu komið með sínar tunnur. Þannig það varð svona skallablettur þarna á milli,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu bs., í samtali við mbl.is.

Þetta þýði að mörg heimili séu nú einni tunnu fátækari og enn ekki komin með endurvinnslutunnu frá sveitarfélaginu.

„Það skýrir aukið álag á grenndargámakerfið en ég skil ekki hvers vegna fólk skilur þetta eftir fyrir utan fulla grenndargáma.“

Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu bs.
Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu bs. mbl.is/Hallur Már

Sorpið á röngum stað

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem birt var í síðustu viku segir að stærstur hluti sorpsins sem ratar fyrir utan endurvinnslustöðvar eigi ekki erindi þangað.

„Því miður er stærstur hluti af þessu úrgangur sem ekkert erindi á á grenndarstöðvar heldur á að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu," segir í tilkynningunni.

Gunnar Dofri segist ekki geta sagt til um það hvers vegna rusl sem á heima í endurvinnslustöð Sorpu rati ekki þangað.

„Ég get í sjálfu sér ekki sagt til um það sem gengur á í hugarheimi þess sem að skilur rusl eftir á víðavangi,“ segir hann.

Þarf að auka þjónustu við grenndargáma

Segir hann samt sem áður að búið sé að innleiða nýjar tunnur alls staðar nema í Reykjavík og á Seltjarnarnesi og að innleiðing nýrra tunna í Reykjavík sé mjög langt komin á leið, þó viti hann ekki nákvæmlega hvar hún sé stödd. Innleiðingunni á að ljúka í september.

Gunnar segir að fólk geti komið með plast og pappír [í Sorpu] og svo lengi sem það er ekki í neinu iðnaðarmagni þurfi það ekki að borga fyrir að koma með það.

„En [endurvinnslustöðvarnar] eru bara sex, bara opnar ákveðin tíma dagsins og þær eru í það mikilli fjarlægð að fólk þarf oft að keyra, á meðan grenndargámarnir eru hugsaðir til þess að vera í nærumhverfi, svo maður geti labbað.“

„Þetta er tímabundið ástand og ætti að ljúka núna þegar innleiðingin klárast,“ segir hann. „En til dæmis með grenndargámana þarf greinilega að auka við þjónustuna á þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert