Ótímabært að segja til um goslok

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir ótímabært að úrskurða um goslok.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir ótímabært að úrskurða um goslok. Samsett mynd

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir ekki tímabært að úrskurða gosinu við Litla-Hrút lokið, það sé gert töluvert seinna.

Ef eldsumbrot tækju sig upp að nýju væri það skilgreint sem sama gosið. Það væri þá ekki nema ef gosið kæmi upp á alveg nýjum stað að hægt væri að tala um nýtt gos.

Gos hafa tekið sig upp að nýju

Magnús Tumi bendir á dæmi úr fortíðinni svo sem Heklugosið 1980. Þá gaus fyrst í 3 daga en í kjölfarið kom margra mánaða hlé. Gosið kom aftur upp um páskana 1981 og er það talið sami atburður, þótt nokkrir mánuðir hafi liðið á milli.

Hann segir vísindamenn hafa lítil gögn í höndunum til að geta spáð nákvæmlega í framtíðina. Þegar Kröflueldar stóðu yfir gat engin maður spáð því hvort eitthvert einstakt gos væri það síðasta eða í áframhaldandi röð fleiri gosa.

Gosið núna hafi verið í takt við önnur gos á Reykjanesskaganum, það er frekar lítið gos. Gosið í Geldingadölum 2021 teljist meðalgos á íslenskan mælikvarða. „Meginatriðið þegar við horfum á eldvirkni á Reykjanesskaga þá koma upp tímabil með frekar tíðum en ekki mjög stórum gosum. Svo koma löng tímabil með engum gosum. Sem dæmi kom um Kristnitökuhraunið í kringum árið 1000 og svo gerðist ekkert fram til 1150, það er 150 ára hlé.“

Landslagið gefur vísbendingar um áframhaldið

Magnús Tumi er efins að mikið sjáist frekar af framrás kviku í hrauninu sjálfu. Landslagið sé þar frekar flatt og lítill halli til að ýta undir slíka atburði.

„Við sáum það í gosinu 2021, tveimur vikum eftir að gosinu lauk, þá rann kvika frá Geldingadölum og niður brekkuna, niður í Nátthaga í um tvær vikur, á milli staða í hrauninu. Það var ekki eiginlegt eldgos heldur tilfærsla.“ Hann segir enga stóra tanka kviku vera í hrauninu sem líklegir væru til að fara af stað.

Rétt sé samt að gæta ýtrustu varkárni þegar farið er um svæðið og fara ekkert út á nýja hraunið til að byrja með. Gas geti enn safnast fyrir í dældum. „Svo er líka hitt að hraunið er sumstaðar svo gríðarlega úfið, þannig að þar er auðvelt að detta og meiða sig,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert